Skip to content
Give readers a window on the world. Click to donate.
from the April 2021 issue

Eiginmaðurinn og bróðir hans

Jóhann varð fyrri til að standa upp þegar síminn hringdi. Hann var trufluninni feginn. Tengdaforeldrar hans voru í mat og þau höfðu verið að ræða pólitík. Kaffið var komið á borðið ásamt brotum af dýru, dökku súkkulaði sem Ella, konan hans, hafði borið fram á litlum skreyttum diski. Hann var nýbúinn að koma krökkunum í rúmið og flýtti sér fram á gang að svara áður en lætin í símanum vektu forvitni þeirra. Hann lyfti tólinu að eyranu og sagði: „Halló!“

Það var einhver á línunni. Hann heyrði andardrátt en honum fylgdi engin rödd. „Halló?“ endurtók hann og teygði óið eins og hann væri að vonast eftir bergmáli.

„Jóhann? Hæ, þetta er ég,“ sagði bróðir hans á hinum enda línunnar.

„Hæ. Hvað segirðu?“ Hann sneri sér í gættinni og bandaði hendinni til að ná athygli Ellu og benti á kaffibollann sinn sem stóð og kólnaði á borðinu. Hún stóð upp og kom til hans með bollann og hann klemmdi tólið á milli eyra og axlar til að taka á móti og bærði varirnar hljóðlaust: „Takk!“ Hún stóð og beið við hlið hans með áhyggjuhrukku á enninu þar til hann snerti hana létt á beran upphandlegginn til að senda hana aftur til foreldra sinna og hallaði síð- an stofuhurðinni á eftir henni.

„Ég er ekkert að trufla, er það?“ sagði rödd bróð- ur hans í niðamyrkri símtólsins.

„Neinei. Við vorum að klára að borða.“ Hann lyfti bollanum og saup. Ella og foreldrar hennar drukku biksvart kaffi úr litlum bollum og hann kímdi út í annað yfir tepruskapnum þegar hann kleip tveimur fingrum utan um dúkkulegt haldið.

„Foreldrar Ellu eru í mat en við erum búin að borða, erum komin í kaffið.“

„Já. Ókei.“

Það var aftur þögn í símtólinu. Jóhann velti fyrir sér hvort Böddi hefði verið að drekka. „Hvað seg- irðu?“ sagði hann aftur og lagði bollann og undir- skálina frá sér ofan á plastaða og óopnaða símaskrá  á skenknum. Hver notar enn símaskrá? hugsaði hann á meðan hann beið eftir frekari orðum frá bróður sínum.

„Marion er farin,“ sagði röddin á hinum enda lín- unnar. „Hún fór.“

Jóhann hallaði höfðinu að veggnum þar til hvirf- illinn snerti kalda steypuna.

„Hvað meinarðu?“ sagði hann.

„Hún er farin. Ég kom heim úr vinnunni og hún var farin.“

„Hefurðu reynt að hringja í gemsann hennar?“

„Nei. Ef hún vill fara þá er mér sama.“

Jóhann lokaði augunum. Opnaði þau aftur. Á korktöflunni fyrir ofan skenkinn hékk sundurleitt safn af miðum með niðurhripuðum símanúmerum, auglýsingapésum, póstkortum og ljósmyndum. Ljós- myndirnar voru fjölskyldumyndir, aðallega af Ellu og krökkunum. Þetta voru myndir úr fríum á sólríkum sandströndum í útlöndum og tjaldferðum innan- lands.  Það var bara ein mynd af honum á töflunni.  Á myndinni sat hann í hvítum plaststól á veröndinni fyrir framan sumarbústað sem þau höfðu leigt fyrir nokkrum árum. Hann var með krosslagða fætur og hélt á grænni Tuborg-dós og var að horfa á eitthvað í fjarlægð sem myndavélin náði ekki að fanga. Litirnir á myndinni höfðu dofnað og voru ljósir og fölir eins og síðdegissól

„Hvar ertu?“ spurði hann símtólið.

„Á barnum, úti að reykja.“ sagði rödd bróður hans. „Ég varð að komast aðeins út úr húsi.“

„Ókei,“ sagði Jóhann. „Voruð þið eitthvað að ríf- ast?“

„Nei. Ja, kannski smá. Hún hefur verið í svo skrýtnu skapi undanfarið. Ég kom heim og hún var farin.“

„Hvað með dótið hennar?“

„Hvað meinarðu?“

„Dótið hennar. Ef hún er farin frá þér þá hlýtur hún að hafa tekið eitthvað með sér. Ef ekki, þá þurfti hún kannski bara aðeins að komast í burtu, í smá tíma. Er dótið hennar horfið?“

„Ég veit það ekki. Ég kíkti ekki.“

„Hvernig veistu þá að hún er farin?“ spurði Jó- hann og reyndi að hljóma léttur og jákvæður eins   og þetta væri mögulega allt á misskilningi byggt.

„Kannski skrapp hún út og tafðist eitthvað. Kannski kom eitthvað fyrir.“

„Hún er farin.“

Það var þungi í rödd Bödda og Jóhann sagði ekki meira um málið. Hann hélt símtólinu þétt að eyranu og hugsaði um bróður sinn á meðan hann starði á korktöfluna á veggnum og á myndirnar af fjölskyldu sinni og sérstaklega á myndina af sjálfum sér þar sem hann sat á veröndinni fyrir utan leigubústaðinn, sötraði bjór og fylgdist með því hvernig sólsetrið lýsti upp fjallshlíðina hinum megin í dalnum.

„Æi, mér þykir leitt að ónáða þig,“  sagði röddin  í símtólinu þreytulega. „Ég þurfti bara að tala við einhvern.“

„Nei, auðvitað,“ sagði Jóhann. „Við erum nú bræður.“ Honum leið kjánalega eftir að hafa sagt þetta. Maður átti ekki að þurfa að taka slíkt fram. „Viltu að ég komi og sæki þig?“ spurði hann til að reyna að bæta fyrir.

„Nei, vertu þarna með Ellu og þeim. Ég vil ekki vera að draga þig út í þetta veður. Ég þurfti bara aðeins að létta á mér. Mér líður betur núna.“

„Eru viss? Það er ekkert mál.“

„Nei, þetta er allt í lagi. Ég er hvort sem er að fara heim.“

„Ókei. Þú tekur leigubíl, er það ekki?“

„Jú, auðvitað.“

Þeir kvöddust og Jóhann lagði á og stóð kyrr á ganginum stundarkorn, djúpt sokkinn í vangaveltur um bróður sinn og mágkonu og hjónaband þeirra.

Það var þögn þegar hann kom aftur inn í stofu. Hann settist við borðið og tók eftir hvernig Ella og foreldrar hennar störðu á hann. Reiðin blossaði upp innra með honum. Hann var sannfærður um að þau hefðu verið að hlusta á símtalið.

„Hver var þetta?“ spurði Ella. Hún brosti. Hún vissi efalaust vel hver hafði verið í símanum.

„Böddi bróðir,“ sagði hann.

„Er allt í lagi?“ spurði hún, en hann ætlaði ekki að ræða þetta núna fyrir framan tengdaforeldra sína og játti bara og spurði hvort það væri til meira kaffi.

 

Þau minntust ekki aftur á símtalið fyrr en seint um kvöldið, eftir að foreldrar hennar voru farnir og hann hafði lagt leirtauið í bleyti í vaskinn og lofað sjálfum sér að klára það áður en hann færi í vinnuna morguninn eftir. Hún hafði séð um eldamennskuna svo uppvaskið var hans mál, upp á það hljóðaði einn af þeim mörgu góðlátlegu samningum sem þau gerðu sín á milli á hverjum degi. Þau voru að fara upp í rúm þegar hún spurði hann út í símtalið. Hann sagði henni fréttirnar á meðan hann afklæddist og snöggreiddist þegar hún reyndi að spyrja hann út í smáatriðin sem hann hafði ekki haft fyrir að ná upp úr bróður sínum. Hann stóð hálfnakinn fyrir framan hana og fórnaði höndum. „Ég veit það ekki!“ sagði hann. „Ég var ekkert að yfirheyra hann!“ Þau hækkuðu raddirnar stig af stigi en tókst að lokum að hemja sig. Fyrr en varði voru þau komin upp í rúm, kúrðu undir sænginni og héldu þétt utan um hvort annað.

Daginn eftir fór hann snemma úr vinnu til að heim- sækja bróður sinn, eftir að hafa reynt nokkrum sinnum að ná í hann í bæði heimasíma og farsíma. Hann hafði líka hringt á skrifstofuna þar sem bróðir hans vann en eins og hann bjóst við hafði Böddi tekið sér veikindadag.

Það var snjór á gangstéttinni og á bílunum í göt- unni. Gamall og skítugur snjór sem hafði legið yfir borginni í nokkra daga. Hann lagði bílnum og gekk varlega yfir klakabreiðuna í innkeyrslunni. Bróðir hans bjó í íbúð í kjallara hússins sem gengið var inn um frá bakgarðinum og þrepin niður að dyrunum voru ávöl og hál af klaka.

Það tók Bödda nokkurn tíma að koma til dyra og Jóhann hringdi á víxl dyrabjöllunni og bankaði í matt glerið. Hurðin opnaðist að lokum og Böddi stóð í gættinni í baðslopp og joggingbuxum og með loðna inniskó á fótum. Hann fyllti upp í gættina þótt hann stæði álútur. Hann var of stór til að búa í svona lítilli kjallaraíbúð. Eins og tröll undir brú, hugsaði Jóhann. Hann mundi hversu stór bróðir hans virtist vera þegar hann stóð við hlið Marion. Hún var frá Filippseyjum og náði honum varla í öxl. Bræðurnir heilsuðust og Böddi snerist á hæli og gekk inn í íbúðina með Jóhann í humátt á eftir.

Það var langt síðan hann hafði komið inn í íbúð bróður síns. Þeir hittust að jafnaði bara þegar  Böddi kom í mat til þeirra. Þá sat hann til borðs á milli krakkanna. Stóri frændi þeirra var í miklu uppá- haldi hjá Jóa og Helgu. Þau kepptust við að segja honum frá merkilegum uppákomum sem drifið höfðu á daga þeirra í skólanum og eftir matinn var alltaf hægt að plata Bödda frænda til að taka þau í kleinu eða flugvél. Eftir að Böddi og Marion gift- ust hafði hún fylgt honum í þessi kvöldverðarboð. Jóhann sá áhrif hennar hvert sem hann leit í litlu íbúðinni; í hvítri jólaseríu sem var vafin í kringum spegilinn í forstofunni og í smáum, innrömmuðum blómamyndum sem héngu á víð og dreif um stofuveggina. Þar voru einnig innrammaðar myndir af Bödda og Marion og af fjölskyldu hennar á Filippseyjum. Sér til undrunar kom hann auga á mynd af sinni eigin fjölskyldu sem hann kannaðist við af gömlu jólakorti. Hann gat ekki ímyndað sér að Böddi hefði gert sér ferð til að kaupa ramma sem passaði utan um myndina. Hann hefði látið sér nægja að festa myndina á vegginn með kennaratyggjói eða smeygt henni undir ísskápssegul. Marion hlaut að hafa séð til þess að myndin væri römmuð inn og hengd á vegginn.

Honum varð hugsað til þeirra mörgu smáu breytinga sem hann og Ella höfðu orðið vör við í fari Bödda  síðan  hann  kvæntist.  Afmælisgjöfum handa krökkunum var pakkað inn í litríkan pappír með fallegum borða. Böddi hætti að ganga í skyrtum með götum á olnbogunum og var ætíð hreinrakaður. Hann hafði sagt Jóhanni með strákslegu brosi að Marion þætti óþægilegt hvernig skeggbroddarnir rispuðu hana þegar þau kysstust. Ella fékk meira að segja sendan blómvönd í vinnuna þegar hún fékk stöðuhækkun. Blómunum fylgdi kort með heillaóskum frá Bödda og Marion. Kortið var reyndar allsérstakt. Framan á því var mynd af dökkklæddri konu sem kraup á kné. Gylltir geislar ljómuðu í kringum höfuð hennar. Inni í kortinu, fyrir ofan netta rithönd Marion og klunnalega undirskrift Bödda, voru tvær prentaðar ljóðlínur á tungumáli sem Ella hélt að væri latína. Þau komust aldrei að því hvað stóð í kortinu en fyrirhöfnin og velvild Marion í garð þeirra snart þau og þau þökkuðu henni hugulsemina þegar þau Böddi komu næst í mat.

Bræðurnir settust niður við eldhúsborðið. Litli kjallaraglugginn fyrir ofan þá varpaði gráleitri birtu á eldhússkápana. Böddi færði til tóma pitsukassa á eldhúsborðinu og bauð upp á kaffi. „Ég er bara með instant,“ sagði hann. Hann skrúfaði  frá  krananum til að fylla rafmagnsketilinn en vaskurinn var full-  ur af leirtaui og vatnið flæddi yfir óhreina diskana  og niður á gólf. Hann bölvaði, færði til hauginn í vaskinum og þurrkaði upp bleytuna með öðrum fæti með því að nudda loðnum inniskónum yfir pollinn.

„Ég reyndi að hringja í þig,“ sagði Jóhann á meðan þeir biðu eftir katlinum.

„Já, er það?“

„Ég hringdi á skrifstofuna. Þau sögðu mér að þú værir veikur heima.“

Bróðir hans sneri sér við með kaffikrús í hvorri hendi. „Hvað sagðirðu þeim?“ spurði hann og setti bollana á borðið og skóflaði í þá kaffidufti, opnaði síðan ísskápinn og tók út mjólkurfernu. Sykurkarið var nú þegar á borðinu. Bræðurnir kunnu báðir að meta mikið af sykri og mjólk í kaffið sitt.

„Ekkert. Ekki neitt.“

„Ég er búinn með alla frídagana mína,“ sagði bróðir hans og hellti í bollana úr hvæsandi katlinum.

„Ókei.“

Þeir blönduðu ríflega í kaffið.

„Ég vildi að þú hefðir sleppt því að hringja í vinnuna mína,“ sagði Böddi. „Þau gætu haldið að það væri eitthvað í gangi.“

„Það var slökkt á gemsanum þínum.“

„Þetta er ekki eins og í vinnunni þinni. Ég get ekki farið hvenær sem er og sagst vera að vinna heima.“

„Vinnan mín er ekki þannig. Ég er viss um að þau voru ekkert að pæla í því af hverju ég var að hringja.“

„Ég þurfti smá tíma út af fyrir mig. Ég held það ætti nú að vera í lagi að ég hringi mig inn veikan svona einu sinni. Konan mín fór frá mér.“

„Ókei,“ sagði Jóhann og reyndi að róa bróður sinn niður. „Ég sagði ekki neitt við þau.“ Þeir supu aftur á kaffinu og Jóhann spurði: „Hefurðu heyrt í henni?“

„Nei,“ sagði Böddi. Hann hrærði í kaffinu, dangl- aði skeiðinni í bollann og lét hana falla á borðið með glamri. „Ég hef ekkert reynt að ná í hana.“

„Hvar heldurðu að hún sé?“

„Veit ekki. Ætli hún sé ekki hjá einhverri vinkonu sinni. Ég þekki þær ekkert. Kannski fór hún bara aftur heim.“

„En þú ert með slökkt á símanum þínum. Kannski er hún að reyna að ná í þig.“

Böddi virtist argur yfir að verið væri að eyða tíma í þessar vangaveltur. „Hún fór, ókei?“ sagði hann og horfði hvasst á Jóhann. „Hún er farin.“

Jóhann  gafst  upp.   Hann  skóflaði  meiri  sykri    í kaffið til að reyna að dylja biturt bragðið af kaffiduftinu.

„Hvað er að frétta af krökkunum?“ spurði Böddi skyndilega.

„Bara allt fínt. Jói útskrifaðist úr leikskólanum um daginn.“

„Já, ókei? Það er svo langt síðan ég hef séð þau.“

„Þetta  var  nú  svolítið fyndið.  Þau  voru með athöfn og allt. Þetta er nú bara leikskóli. En krakkarnir skemmtu sér vel. Helga er orðin algjör gelgja. Þolir ekki neitt sem við mamma hennar segjum. Við erum víst svo hallærisleg.“

„Æi, þið eigið svo frábæra krakka.“

„Já, ég veit.“

„Ég vonaði að við Marion myndum líka eignast krakka. Þá hefðu Jói og Helga getað passað fyrir okkur og við öll farið í bústað saman og svoleiðis.“

„Já, það hefði verið gaman,“ sagði Jóhann og reyndi að láta ekki draga sig inn í skýjaborgir bróð- ur síns en gat þó ekki stillt sig um að bæta við: „Það er aldrei að vita. Kannski náið þið saman aftur.“

„Nei. Nei, það held ég ekki,“ sagði bróðir hans. Augun lágu djúpt í breiðleitu andlitinu. Augun í hon- um voru svo viðkvæm. Jóhann mundi hvernig Böddi gjóaði þeim flóttalega í allar áttir þegar þeir voru ungir og fóru saman á böll, eins og hann væri viss um að einhvers staðar í salnum væri fólk að gera gys að honum.

„Hvað segir Ella?“ spurði Böddi.

„Bara fínt. Mikið að gera í vinnunni.“ Það var rúmur mánuður síðan Ella hafði tekið Bödda afsíðis í matarboði og sagt honum að hann yrði að hætta  að hringja í Jóhann þegar hann væri búinn að vera að drekka. Hún sagði Jóhanni frá fyrirmælunum kvöldið eftir. Annað fólk hefði látið það ógert. Ekki Ella, það var ekki hennar stíll. Henni hugnaðist ekki þögnin sem umlukti bræðurna og alla þeirra fjölskyldu. Hennar fólk talaði um allt og reifst hástöfum og sagði það sem segja þurfti. Jóhann þoldi ekki hvernig foreldrar hennar og systkini rifust fyrir framan hvern sem var, alltaf um sömu bitbeinin. Hann sá ekki tilganginn í að eyða svona miklum hávaða og orku í að velta sér upp úr því sem aldrei myndi breytast. Þú elskaðir fólkið sem þú elskaðir og varðst að taka því eins og það var. Engu að síður fauk í hann þegar Ella sagði honum frá samtali hennar og Bödda. Þau lentu í ógurlegu rifrildi, óhrædd við að sleppa af sér beislinu þar sem börnin voru í gistingu hjá foreldrum hennar. Kvöldið hafði átt að vera bara fyrir þau tvö, með kertum og góðu víni og mat, en Jóhann hafði rokið út í göngutúr í staðinn. Það var hans venja þegar hann þurfti að ná sér niður. Þegar hann sneri aftur var hún búin að opna vínflöskuna og byrjuð að elda. Orðalaust hóf hann að leggja á borð og kveikja á kertunum í löngu og mjóu kertastjökunum á borðstofuborðinu. Þau sátu og borðuðu í þögn, unnu smátt og smátt  á flöskunni og skiptust á að hella í glas hvort fyrir annað. Að máltíðinni lokinni lagði hann höndina á mitt borðið, sneri lófanum upp á hvítum dúknum, og hún tók um fingur hans. Hann gat aldrei fundið orðin til að segja henni hversu þakklátur hann var fyrir þennan mikla styrk hennar; hvernig hún hélt verndarhendi yfir honum og börnunum. Í rökkrinu í svefnherberginu hvíldi hann höfuðið á brjósti henn- ar eins og lítið barn.

„Þið eruð heppin að hafa fundið hvort annað,“ sagði Böddi. „Þið passið svo vel saman.“

„Já, ég veit,“ sagði Jóhann. „Þið Marion voruð líka góð saman,“ bætti hann við en Böddi hristi hausinn.

„Nei, ekki eins og þið. Við höfðum ekki einu sinni hist almennilega fyrr en viku áður en við gift- um okkur. Bara skrifast á og talað saman með vef- myndavélum.“

Jóhann kinkaði kolli og reyndi að fela forvitni sína. Það voru næstum tvö ár síðan Böddi kom við eftir vinnu og hitti á Jóhann einan heima. Ella var  í leikfimi og krakkarnir í tónlistarskólanum. Hann hafði verið að skila af sér síðbúinni afmælisgjöf handa Jóa og á meðan þeir sátu við eldhúsborðið með kaffi ljóstraði hann því skyndilega upp að hann ætti kærustu sem hann hefði hitt á netinu og að hann væri að fara í heimsókn til hennar til Manila á Filippseyjum. Jóhann vissi varla hvað hann ætti að segja. Hann saup á kaffinu og sagði: „Ja hérna!“ og óskaði síðan bróður sínum til hamingju. Þegar Böddi kom aftur heim til Íslands mánuði seinna var hann trúlofaður.

Þau voru tvístígandi fyrst, hann og Ella. Óviss um hvort þeirra væri að notfæra sér hitt; Marion eða Böddi. En eftir að þau hittu Marion og sáu áhrifin sem hún hafði á Bödda og hvernig hann hegðaði sér í kringum hana, ákváðu þau að þetta væri kannski þeim báðum fyrir bestu. Marion var einlæg og glaðlynd og snerist um Bödda eins og hann væri barn. Hún var lágvaxin og samanrekin og þegar þau Böddi komu í kvöldmat fann hún leiðir til að hjálpa til við matarundirbúninginn og tók þátt í að taka af borðum og vaska upp. Á meðan sat Böddi með kaffið sitt. Það minnti Jóhann á föður þeirra, hvernig hann sat og sötraði kaffi á meðan mamma þeirra snerist í kringum hann. Marion talaði góða ensku en þó með miklum hreim og undarlegum áherslum. Þau töluðu öll ensku við matarborðið til að hún yrði ekki útundan en hún skipaði þeim oft að tala frekar móðurmálið. „Til að hjálpa mér að læra,“ sagði hún á bjagaðri íslensku. Hún var iðin við að sækja ýmis íslenskunámskeið þar sem hún kynntist fólki hvaðanæva úr heiminum. Endrum og sinnum náði hún ekki öllu sem Jóhann og Ella sögðu en það virtist ekkert trufla hana, heldur brosti hún bara og yppti öxlum og hallaði sér aftur í stólnum til að láta þau vita að hún skildi ekki. Það var frekar að það truflaði Bödda. Hann fór hjá sér og hallaði sér að henni til að hvísla útskýringar í eyra hennar.

„Þetta var svona stefnumótasíða,“ sagði Böddi í rökkvuðu eldhúsinu. „Þeir voru með fullt af myndum og nöfn og áhugamál og svoleiðis. Líka myndir af körlum sem voru að auglýsa eftir eiginkonum. Svo gat fólk klikkað á hvert annað og skrifast á. Ég skoðaði eitthvað af því sem hinir karlarnir skrifuðu um sjálfa sig, svona til að fá hugmyndir, og sumir þeirra voru frekar ógeðslegir. Voru að tala um hvernig konur þeir vildu. Stærðir og svoleiðis.“ Orðin flæddu alls óhindruð, eins og því fylgdi léttir að leysa frá skjóðunni.

„Hvað sagðirðu um sjálfan þig?“ spurði Jóhann og sá hvernig bróðir hans fór hjá sér.

„Bara, þú veist. Þetta venjulega. Ég skrifaði um hver ég væri, áhugamál og vinnu og svoleiðis. Sagðist vilja kynnast góðri konu. Góðhjartaðri konu.“ Hann hikaði og sagði svo: „Fólk heldur að þetta sé eitthvað mansal. Að þessar konur séu keyptar eins og söluvara. Það er ekki þannig. Það er enginn peningur í þessu, bara fólk sem vill hittast og reyna að búa til líf saman. Sumar þessar stelpur, það er ekki mikið í boði fyrir þær þarna og þær langar að komast burt og eignast eiginmann og fjölskyldu. Og megnið af körlunum eru bara gaurar eins og ég sem misstu af tækifærinu til að kynnast konu og eignast fjölskyldu þegar þeir voru yngri.“

Jóhanni varð eilítið órótt við að hlusta á bróður sinn tala. Foreldrar þeirra og frændfólk minntist aldrei á það við hvort annað hvernig Böddi og Marion kynntust. Hann hafði alltaf haldið að það væri kurteisi að ræða það ekki en var ekki endilega svo viss lengur.

„Var það svoleiðis hjá Marion, að hún vildi komast í burtu?“ spurði hann og kom sjálfum sér á óvart með eigin hnýsni.

„Já, eiginlega,“ sagði bróðir hans. „Ekki svo slæmt samt. Hún vildi fá að lifa sínu eigin lífi. Vildi ekki búa hjá mömmu sinni að eilífu og sá ekki fram á að giftast þar sem hún var. Hún átti ekki fyrir að kaupa sína eigin íbúð og það er strembið að leigja einn þarna. Ekki margt að fá. Flestir vilja einungis leigja pörum og fjölskyldum.“

„Svo hún ákvað bara að koma hingað í staðinn?“

„Já. Hún var orðin leið á Cavites, fannst hún vera föst þar. Það er borgin sem hún bjó í, lítil borg hinum megin við flóann frá Manila. Þegar ég fór að heimsækja hana hittumst við í Manila og tókum ferjuna yfir. Hún var með frænku sína með sér til að passa að ekkert gerðist. Þegar við náðum loksins að tala saman í friði fyrir frænkunni, sagði hún að hún liti á þetta allt saman sem ævintýri. Að við værum að fara að upplifa ævintýri saman.“

Hann þagnaði og leit á Jóhann.

„Við vissum hvað við vorum að gera,“ sagði hann. „Við vissum að við værum ekki ástfangin, ekki ennþá. Við héldum að það kæmi seinna. Að saman myndum við rækta með okkur ást. Ég hitti fjölskylduna hennar. Þau eru mjög gott fólk, öllsömul. Pabbi hennar er dáinn en ég talaði við mömmu hennar. Hún spurði út í vinnuna og íbúðina mína. Hvort ég ætti bíl. Hún var að passa að ég gæti séð fyrir dóttur hennar, skilurðu? Mamma hennar sagði mér að hún og pabbi Marion hefðu gift sig að ósk fjölskyldna þeirra. Þau þekktust næstum ekkert þegar þau giftust en ræktuðu síðan með sér ást. Alveg eins og við ætluðum að gera.“

Hvernig Böddi sagði „ræktað með sér ást“ hljóm- aði skringilega í hans munni og Jóhann áttaði sig á að hann var að endurtaka frasa sem Marion hafði sagt eða, sem honum þótti líklegra, sem móðir Marion hafði sagt við þau bæði. Frasinn bar vott um sorg og örvæntingu; hinsta von móður Marion er hún horfði á dóttur sína hverfa á brott með ókunnugum manni.

Bræðurnir sátu lengi og ræddu um ferð Bödda til Manila og um Marion. Böddi lýsti því hvernig hann hafði séð myndina af henni á stefnumótasíðunni og umsvifalaust orðið hugfanginn af henni. Hvernig hann þekkti hana á brosinu um leið og hann kom út úr hliðinu á flugvellinum. Hann hafði lesið það sem hún hafði skrifað um sjálfa sig á stefnumótasíðunni og þótt hún virka klár og örugg með sig. Þroskaðri en hinar stelpurnar á síðunni  þrátt  fyrir  að  vera  tíu árum yngri en hann. Þegar þau hittust í fyrsta sinn voru þau þögul og feimin, eins og unglingar á leiðinni á sitt fyrsta ball, með roskna frænku hennar  í eftirdragi. Eftir að hún féllst á að giftast honum  var haldin veisla með fullt af ættingjum. Það var síðasti dagurinn þeirra saman, áður en hann fór  aftur heim til Íslands að bíða hennar. Böddi  kall- aði það grillveislu en af lýsingunum að dæma hafði samkoman verið hátíðlegri en svo. Þau Marion sátu hlið við hlið, umkringd fjölskyldu hennar, og héld- ust í hendur undir borðinu á meðan þeim var færður grillmatur á pappadiskum.

Á meðan Jóhann hlustaði á frásögnina af því hvernig bróðir hans og mágkona kynntust varð honum ljóst að Böddi hafði lengi beðið eftir tækifæri til að segja einhverjum þessa sögu og hafði sagt sjálfum sér hana aftur og aftur þar til hún var þaulæfð. Þetta var sagan af stóra rómantíska ævintýrinu sem hann og Marion réðust í saman. Hann virtist hafa gleymt vissum þáttum sögunnar eða vísvitandi hlaupið yfir þá.

Símtölin höfðu byrjað fyrir einhverjum mánuðum síðan, stuttu eftir að Marion fór að eignast sína eigin vini á Íslandi. Bæði fólkið á íslenskunámskeiðunum og aðrar konur frá Filippseyjum sem höfðu komið  til Íslands til að giftast íslenskum karlmönnum. Böddi hafði hringt og kvartað yfir því  við Jóhann að Marion vildi að hann hitti þessar vinkonur og eiginmenn þeirra. Þau mæltu sér mót heima hjá  hvert öðru reglulega, skiptust á að halda matarboð og leigðu jafnvel sal og komu með  filippseyskan mat með sér, fengu hljómsveit eða plötusnúð og dönsuðu fram á nótt. Böddi þoldi ekki þessar samkomur. Konurnar töluðu allar saman og hlógu  og hann skildi ekki neitt. Hann var fastur með eiginmönnunum sem hann sagði að væru hálfgerðir hallærisgaurar. „Svona sorglegar týpur,“ sagði hann við Jóhann í símann. Eftir að hann fór að neita að fara með henni, snerust símtölin upp í kvartanir um að Marion væri aldrei heima og vildi bara vera með vinum sínum en ekki honum. Hann tók að fara á barinn í staðinn, eins og til að jafna metin. Hann skyldi sko ekki sitja einn heima að bíða eftir henni.

Þótt Jóhann þekkti alla þessa forsögu gat hann ekki fengið sig til að neita Bödda um rómantísku draumamyndina sem hann dró upp af hjónabandi þeirra Marion, rétt eins og í öllum símtölunum þar sem hann leyfði Bödda að tala og reyndi af fremsta megni að taka enga afstöðu. Hann leiddi sjaldan hugann að því hvernig Marion myndi segja söguna af kynnum sínum við Bödda og hjónabandi þeirra, heldur bægði þeim hugsunum frá sér.

Eins og oft áður var hans varla þörf í samtalinu.  Á meðan Böddi talaði kinkaði hann kolli og jánkaði þegar við átti. Ísskápshurðin á bak við Bödda var þakin miðum og bæklingum og ljósmyndum  sem var haldið uppi með skrautlegum ísskápsseglum. Hvorki Marion né Böddi voru á neinni myndinni. Þær hlutu að hafa verið sendar í pósti frá ættingjum hennar heima á Filippseyjum. Á myndunum voru nýfædd börn í skírnarkjólum og litlir krakkar í samkvæmisklæðum. Þarna voru myndir úr brúðkaupum og öðrum slíkum viðburðum þar sem karlarnir voru  í hálfgegnsæjum hvítum skyrtum með stífpressuðum krögum og konurnar í litríkum ballkjólum. Þau brostu glaðlega við myndavélinni, eins og þau væru við það að skella upp úr.

„Ég hélt að þú hefðir sagt að allt dótið hennar væri farið,“ sagði Jóhann.

Böddi hafði lokið máli sínu og sat þögull með báðar hendur um hálftóman kaffibollann.

„Ha?“ sagði hann.

Það var erfitt fyrir Jóhann að endurtaka spurninguna,  sem  hafði  fallið  svo  skyndilega  af vörum hans að hann áttaði sig varla á að hann væri að tala upphátt. Hann endurtók orð sín stamandi og muldrandi.

„Dótið hennar. Ég hélt að þú hefðir sagt að hún hefði tekið allt dótið sitt. Í gær þegar ég talaði við þig í símann.“

„Það er eitthvað af dóti farið.“

„Skildi hún allar fjölskyldumyndirnar sínar eftir?“

Böddi starði á hann. Andlitið, sem hafði verið opið og glaðleitt á meðan hann sagði söguna af sér og Marion, lokaðist.

„Ætli hún sendi ekki eftir dótinu sínu seinna,“ sagði Jóhann, hjálparlaus í þögninni sem stafaði frá Bödda.

Böddi kinkaði hægt kolli.

„Jú, ætli það ekki.“

Eitthvað hafði breyst í litla eldhúsinu. Það var að verða dimmt úti. Jóhann saup á kaffinu en það var orðið kalt. Hann kláraði engu að síður úr bollanum og lét ekki á neinu bera.

„Jæja, ég þarf víst að fara að drífa mig,“ sagði hann.

„Gaman að þú gast kíkt í heimsókn,“ sagði Böddi.

Þeir stóðu upp og föðmuðust klunnalega við borðsendann. Böddi fylgdi honum til dyra. Jóhann þræddi á sig jakkann og vafði trefli um hálsinn.

Hann hafði ekki farið úr skónum þegar hann kom inn og sá nú að hann hafði skilið eftir sig fótspor á gólfinu. Hann opnaði hurðina og sneri sér að bróður sínum.

„Þú ættir samt að fara í vinnuna á morgun,“ sagði hann. „Annars kann þeim að þykja það eitthvað undarlegt.“

Bróðir hans kinkaði kolli.

Jóhann hélt sér í handriðið á meðan hann gekk upp sleipar tröppurnar. Þegar hann leit við stóð Böddi í gættinni. Honum kom aftur í hug tröll sem bjó undir brú. Þeir horfðust í augu og hvorugur þeirra gerði eða sagði neitt til að gefa til kynna að þeir þekktust. Svo lokaði Böddi hurðinni.

Á meðan bíllinn er stopp á rauðu ljósi sér Jóhann skyndilega fyrir sér hvar Böddi gengur á milli herbergja í litlu íbúðinni og tekur niður ljósmyndir og blómamálverk, fjarlægir föt úr svefnherbergisskápnum og meik og krem úr baðherbergisskápnum og treður öllu í svartan ruslapoka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

81

Read more from the April 2021 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.