Skip to content
Words Without Borders “stands as a monument to international collaboration and a shared belief in artistic possibility.” 
— 2018 Whiting Literary Magazine Prize Citation
from the October 2011 issue

Fjögur veikburða hjól

Tvær miðaldra konur sem bera út morgunblöðin draga kerrur sínar samsíða eftir ísilagðri götunni, þögular undir úlpuhettunum. Þær minna mig á flugfarþegar með töskuvagna í eftirdragi, leitandi að útgönguleið í risastórri, yfirgefinni flugstöð. Fyrir utan marrið í kerruhjólunum heyrist ekkert nema skellirnir í lofttúðunni  á Landakotsspítala, eða kannski er verið að hita upp líkbrennsluofninn. Það hefur verið annríki síðan langlegudeildunum var fjölgað. Ég bý í öskugráu húsi sem kallar fram mynd af skipi. Á köldum nóttum sem þessum er það einsog fast í ís, því ekkert sést út fyrir hrími. Ég er alltaf á hægfara siglingu í þessu húsi. Ég sigli burt. Ætli blaðburðakonurnar velti því einhvern tímann fyrir sér hverjir beri þessi nöfn á dyrabjöllunum, hvaða andlit leynist bakvið bréfalúgurnar? Hérna eiga heima sjötíu áskrifendur að hundrað síðna blaði; sjö þúsund síður af smáu letri og kornóttum myndum sem tvær árrisular drottningar teyma um einskismannsland fyrir dögun. Það eru mörg orð á fjórum veikburða hjólum. Og ábyrgðin er svo mikil að þær þykjast ekki taka eftir neinu þegar ég þramma yfir ófarinn veg þeirra, klíf landganginn og gef dauðum hásetunum skipun um að leysa festar. Í iðrum skipsins velkjast sögur sem ekkert dagblað kann að segja og engar úlpukonur hafa afl til að draga um götur sem stela nöfnum sínum frá dekksta sjónum.

Read more from the October 2011 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.