Skip to content
For literary responses to COVID-19 from writers around the world, check out our Voices from the Pandemic series.
from the January 2012 issue

Hús Nr. 451

Það er gamalt og hrörlegt, óhrein og rifin gluggatjöld  fyrir öllum gluggum, þakið að gefa sig, loftnetið dottið af gaflinum; hangir á snúrunni upp við vegginn. Sprungur í öllum útveggjum og málning sem eitt sinn var hvít er orðin brúnleit og víðast hvar flögnuð af. Garðurinn er í órækt, tré og limgerði vaxa hömlulaust, kominn mosi í grasið á flötinni, fíflar og sóleyjar út um allt, eldgömul róla í einu trénu, og annað bandið slitið svo hún dregst við jörðu og hreyfist ekki nema í hvassviðri, dregst þá eftir grasinu með dapurlegu hvískri.

Hér hefur enginn búið lengi. Ryðgað þakið ber við fjallið, sem er líka ryðrautt á litinn. Ég hef spurt marga hverjir hafi búið í þessu húsi, en enginn virðist kannast við að nokkur hafi búið þar. Það er einsog það hafi bara verið byggt og svo yfirgefið án þess að nokkur hafi átt heima í því. Ég sé að rúðan í stofuglugganum er sprungin þvert yfir, og glerið í útidyrahurðinni er brotið. Þar gustar inn þegar veður er napurt.

*

Einhver hefur samt ætlað að búa hér, í það minnsta. Á veggnum við stofugluggann er áfallinn koparskjöldur sem á stendur, reist 2010. Nú, þegar ég skrifa þetta, er árið 2072. Það eru 62 ár. Ekki svo langur tími í ævi húsa, en samt veit enginn neitt. Í fyrrasumar keypti ég húsið hérna við hliðina á því og er forvitinn, en fæ hvergi upplýsingar. Þegar ég horfi á loftnetið sem hangir á veggnum og svo á stóru gervihnattadiskana á þakinu hjá mér, einsog risastóra sveppi, get ég ekki varist brosi. 

„Pabbi,“ segja dætur mínar, „því er húsið við hliðina svona ljótt?“

„Veit það ekki stelpur mínar,“ segi ég og held áfram að skrifa. Ég er alltaf að skrifa. Samt er orðið úrelt að skrifa, það er svolítið einsog gamalt hús sem var reist

2010 og nú býr enginn í því.

„Geturðu ekki bara hætt þessu alveg?“ segir konan mín og á við skriftirnar. Henni finnst þetta annarlegt, þetta gerir enginn og allra síst í svona bæ.

„Þú veist að enginn gefur út bækur lengur,“ bætir hún við.

„Það er alveg sama. Ég verð að skrifa.“ Ég segi þetta þrjóskulega.

„Jæja þá,“ andvarpar hún, og heldur áfram að horfa á 200“ skjáinn sem þekur nánast allan stofuvegginn okkar. Engar bækur fá að vera á veggjunum í þessari stofu.

*

Ég sit í litla herberginu mínu og skrifa. Ég handskrifa á blöð einsog gert var áður. Fistölvuna hef ég lagt til hliðar, enda verður hún hvort sem er bráðum úrelt líka einsog allt. Á hverjum degi verður eitthvað úrelt.

Það er orð sem við sem lifum núna óttumst mjög. Í hvert sinn sem þetta orð er sagt herpist fólk saman af leyndum ótta.

Það er farið að rökkva, ég lít út um gluggann með ofurglerinu sem er einsog glerið í geimskipunum, og allir eru nú með. Hlyntrén í garðinum eru falleg, en mörgum finnst þau úrelt og vilja ekki hafa nein tré í görðunum hjá sér. Ég sé gegnum laufþykkni þeirra yfir að auða gamla húsinu. Gardínurnar í þeim glugga þess sem snýr að mér eru einna líkastar striga, einhvernveginn í henglum, og flekkóttar. En allt í einu finnst mér einsog ég sjái ljósglætu á bak við þær, að einhver sé kominn þarna inn í húsið og hafi kveikt ljós, eða jafnvel á kerti, þó þau séu reyndar bönnuð núna af öryggisástæðum.

Ég ákveð að skreppa út í garðinn, stend upp frá borðinu með blöðunum, minnist orða sem ég hef lesið: Til hvers er að setjast niður til að skrifa, ef maður hefur ekki lifað?

Ég fer í gegnum stofuna. Þar er bláleit birtan af risaskjánum allsráðandi og óhugnanlega stórar mannverur fylla vegginn okkar. Hér, á okkar eigin heimili, er innrás af bláókunnugu fólki öll kvöld.

Konan mín situr í hvítum sófanum og horfir alveg bergnumin á þessa óboðnu gesti. 

„Hvar eru stelpurnar?“ spyr ég.

Hún svarar ekki strax.

Ég endurtek spurninguna.

„Þær eru inni í herbergi í sýndarveruleiknum.“

„Einmitt,“ segi ég.

Um leið og ég fer í jakkann óska ég mér að minnsta kosti 60 ár aftur í tímann, að árinu 2012. Þá voru tvö ár frá því húsið við hliðina var byggt, og þar sem ég stend núna, í forstofunni, var ekkert nema gras.

Ég kann samt ekkert á tímaferðalög.

Jakkinn minn er grár, úr einhverju undarlegu gerviefni sem sindrar í rökkrinu. Mér finnst hann ekki sérlega þægilegur, en konan vill að ég sé í honum.

Hann er víst í tísku. Þegar ég kem út í garðinn minn, geng ég inn á milli hlyntrjánna. Ég velti því fyrir mér hvað ég fái að halda þeim lengi í garðinum hjá mér.

Flestir vilja trén burt. En afhverju skyldi húsið við hliðina aldrei hafa verið rifið?

Það fær að standa þarna áfram, á skjön við öll hin húsin, beinar sviplíkar raðirnar, eða öllu heldur sviplausar.

Ég hef aldrei sett grindverk á milli garðanna, svo ég get gengið beint yfir á hina grasflötina. Grasið þar er mjög hátt. Það er aldrei slegið. Mosinn er mjúkur einsog teppi undir fótum í grassverðinum.

Ég fer upp á molnandi steinstéttina við aðaldyrnar.

Mér finnst ég heyra eitthvað, líkt og hvísl margra radda.

Það gæti verið misheyrn. En nú sé ég að bakvið stofugardínurnar er bjarmi frá litlu vasaljósi, eða kerti. Allt í einu er einsog gardínurnar verði sem nýjar, stéttin er ekki lengur molnuð, húsið er nýmálað, og það er árið 2012 aftur. Ég stend þarna á tröppunum, og það er einsog ég búi í húsinu núna, og hafi aðeins farið út til að fá mér frískt loft áður en ég fer aftur inn til að tala við fjölskylduna mína við eldinn frá arninum.

*

Ég stend þarna nokkra stund, áður en árið 2072 kemur á ný. Þetta er einsog með vínárgangana; það er ekki gott ár. Vantar alla almennilega gerjun í það. Ég finn að ég vildi heldur lifa í árinu 2012. Það er dálítið kul og ég sé bandið á rólunni bærast, en það þarf miklu meiri vind til að hún fari að dragast eftir grasinu með þessu hvískurhljóði sem ég þekki orðið vel.

Svo heyri ég aftur hvíslið að innan. Ég horfi yfir að húsinu mínu, sem nú virðist vera hús einhvers annars, og tek í snerilinn á útidyrahurðinni. Hún er læst. Þá geri ég nokkuð skrýtið; ég fer ofan í vasa minn og dreg upp lykil, set hann í skrána, sem ég á þó erfitt með að finna í rökkrinu.

Lykillinn passar. Ég opna og geng inn fyrir. Það er engin fúkkalykt einsog ég bjóst við, og ég sé greinilega

þennan bjarma sem berst fram á ganginn, úr stofunni.

Ég kalla lágt:

„Er nokkur þarna?“

Meira man ég ekki.

© 2009 Gyrdir Eliasson

 
Read more from the January 2012 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.