Skip to content
Words Without Borders is one of the inaugural Whiting Literary Magazine Prize winners!
from the October 2011 issue

Infernó

 

 

 

 

Við vorum nýflutt inn í íbúð í úthverfi. Það hafði
verið mikið vesen við að sækja og fara með hluti og
gera ýmislegt sem maður nennti alls ekki en taldist
vera nauðsynlegt á mælikvarða samfélagsins. Það var
á sjöunda degi eftir að við fluttum inn sem konan
mín sagði að nú þyrftum við að fara í Ikea og kaupa
hægindastól sem passaði betur við sófann en sá sem
við áttum fyrir. Mér fannst nákvæmlega ekkert að
stólnum sem við áttum, en sagði þó ekkert
við því.
„Þú manst eftir stólnum sem ég sýndi þér?“ sagði
hún.
„Hvaða stól?“
„Þessum sem var í bæklingnum,“ sagði hún.
„Nei,“ sagði ég.
„Þú manst aldrei neitt.“
„Það er víst rétt,“ sagði ég.
Tíminn leið við að hengja upp myndir og raða
bókum í hillur, og það var komið fram undir seinna
kaffi þegar við lögðum loksins af stað í stólakaupin.
Það var farið að hausta lítið eitt, lauf tekin að falla af
trjánum og daufir skuggar féllu af stofnum þeirra á
grasflötina í síðdegissólinni.
Umferðin var skelfileg þennan seinnipart, einsog
hún er reyndar alltaf í þessari smáborg sem er að
reyna að sýnast svo stór. Ég hafði kveikt á útvarpinu.
Bob Dylan var að syngja lag af plötunni Street Legal.
Ég hlustaði, og horfði framundan mér gegnum
sólgleraugun.
„Þú ert alltaf svo utan við þig þegar þú keyrir,“ sagði
hún og lækkaði í útvarpinu.
„Er það?“ sagði ég.
„Já, alltaf.“
Jepparnir þutu fram úr okkur, hver af öðrum.
Gamli Vífilsstaðaspítalinn kom í ljós með gulnandi
grasið í kring og trjágróður, minnti á aflagðan herragarð,
eftilvill sænskan, að minnsta kosti kom Margit
Söderholm alltaf upp í hugann þegar ég ók þarna
framhjá. Að baki hússins voru ávalar og kjarri vaxnar
hæðir, brúnleitar núna í haustbirtunni. Álengdar birtist
Ikeabyggingin. Enginn skilur hvernig leyfi fékkst til
að byggja svona rétt við undurfagrar gönguleiðir í
Heiðmörkinni. En hérna var þetta bákn komið, og
því yrði ekki breytt.
„Ljótt hús,“ sagði ég.
„Hvaða hús?“ spurði hún og leit á mig.
„Ikea,“ svaraði ég.
„Það finnst mér ekki,“ sagði hún. Svo bætti hún við:
„Leggðu bílnum alveg upp við húsið.“
Daufblár skuggi af húsinu féll á bílinn þegar ég
lagði honum og við stigum út. Við gengum inn um
hringdyrnar. Það er ekkert gaman að hringdyrum
lengur, þær eru allar tölvustýrðar og jafnvel Chaplin
gæti ekki gert neitt skemmtilegt með þær. Inni var
töluvert af fólki, og það streymdi að rúllustiganum,
lét sig renna upp á við og horfði út í loftið. Það var
ekki gott að segja hvort í augnaráðinu var von um
bjarta framtíð með hjálp sænskrar hönnunar, eða bara
tómlæti, án vonar.
Við stóðum hvort í sínu þrepi rúllustigans og horfðum
í ólíkar áttir.
*
Í stofudeildinni reikuðum við milli stóla og sófa, en
fundum ekki stólinn sem konan mín var að leita að.
Ég mundi reyndar enganveginn hvernig hann leit út,
en lét ekki á neinu bera og þóttist vera að skima
eftir honum. Ungur maður í gulri skyrtu gekk hjá, og
konan mín kallaði á hann.
„Það var þessi stóll,“ sagði hún.
„Hvaða stóll?“ sagði afgreiðslumaðurinn.
„Þessi hérna,“ sagði hún, dró bæklinginn upp úr
handtöskunni sinni og fletti honum, benti á stólinn.
„Já, hann er uppseldur.“
„Uppseldur?“
„Því miður.“
„Það er alltaf allt uppselt hjá ykkur.“
„Ekki alveg alltaf,“ sagði ég og reyndi að milda þetta
aðeins.
„Jú, alltaf,“ sagði hún með festu.
„Ég skal athuga málið aðeins betur,“ sagði afgreiðslumaðurinn.
Hann gekk burt, leit um öxl í átt til okkar, rak sig á
sófahorn og hrasaði við, hélt svo áfram.
Korter leið, en hann kom ekki aftur. Það kom enginn
sem leit út fyrir að vera við afgreiðslu, og yfirleitt
slæddust furðu fáir þarna í sófadeildina, nánast einsog
hún væri ekki í alfaraleið í búðinni. Andartak fannst
mér ég vera staddur í barnasögu eftir Jens Sigsgaard.
Ég sat í brúnum leðursófa, býsna þægilegum, en
konan mín stóð óþolinmóð allan tímann og horfði
haukfránum augum yfir salinn.
„Þetta eru tóm fífl hérna,“ sagði hún.
„Er það nú alveg víst?“ sagði ég.
„Alveg.“
Að lokum gáfumst við upp á að bíða og gengum
eftir merktum stígnum áfram gegnum búðina, létum
örvarnar hugsa fyrir okkur. Við skoðuðum ekkert annað
á leiðinni.
*
Þegar við komum að matsalnum barst ilmur af steiktum
sænskum kjötbollum að vitum, og ég fann að
ég var að verða svangur. Ég staldraði við í gættinni
og leit inn í salinn. Þar var frekar fátt, en þó sátu
nokkrir við borðin. Aðrir stóðu við afgreiðsluborðið
og biðu þess að kjötbollum og kartöflum með sósu
og týtuberjasultu yrði mokað upp á diskana.
Haustsólin skein inn um gluggann, og mér varð starsýnt
á mann sem sat einsamall við eitt borðið útvið
gluggann. Hann sat álútur, var rauðhærður og með
gisið skegg, í svörtum frakka með uppbrettum kraga,
og samlitt beltið lafði niður á gólfið. Hann var með
bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog
hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar
sem mætti sjá heilan heim.
Mér fannst ég kannast við manninn, en áttaði mig
ekki strax á honum. Svo rann skyndilega upp fyrir
mér ljós.
Þetta var August Strindberg.
Strindberg, sem hafði óttast helvíti meira en nokkuð
annað, og hafði skrifað um þann ótta sinn, en var nú
lentur hér eftir dauðann, í Ikea á Íslandi. Hann sem
hafði haldið að Lundur væri helvíti á jörð, en vissi fátt
um Ísland og ekkert um Ikea, enda var það ekki til
á hans dögum. Ég sá hvernig hann einsog seig meira
og meira saman yfir bjórglasinu, dæmdur maður um
alla eilífð. Hann sem hafði skrifað í dagbók sína: „Sá
sem segir að lífið sé dásamlegt, er annaðhvort svín
eða hálfviti.“
„Sjáðu þarna,“ sagði ég við konuna mína og benti
yfir salinn.
„Hvar?“
„Þarna útvið gluggann.“
„Hver er þetta?“
„Þetta er August Strindberg.“
„Er það forstjórinn?“ sagði hún áhugalaus. Svo lifnaði
aðeins yfir svipnum og hún bætti við: „Eiginlega
ætti ég að láta hann heyra hvernig þessi búð er orðin.“
„Nei, hann er rithöfundur,“ sagði ég og leiðrétti mig
síðan: „Eða var.“
„Þessi gamli meinarðu?“
„Já.“
Hún leit snöggt á mig.
„Þykistu vera farinn að sjá afturgöngur?“
„Ja, ég sá Draugasónötuna á sínum tíma.“
„Hvað ertu að meina, maður?“
„Þetta er samt hann,“ sagði ég.
Hún tók í jakkaermina mína og nánast dró mig
áfram, í átt að hringdyrunum.
*
Skugginn á planinu hafði dýpkað og það var orðið
svalara. Við stigum inn í bílinn og ég ók hægt af stað.
Ég ætlaði að skrúfa aftur frá útvarpinu en hætti við
það.
„Þarna kem ég aldrei aftur,“ sagði hún og spennti á
sig beltið með rykk.
„Aldrei að segja aldrei,“ áræddi ég að segja. Ég fór
að hugsa um Strindberg, hvernig hann hafði setið,
sviptur allri von um lausn og þetta svarta belti á frakkanum
sem lafði niður á gólfið líkt og hlekkir. Stórir
frakkaboðungarnir ekki ósvipaðir börðum á djöflaskötu.
Lágar hæðirnar fyrir ofan veginn voru seiðandi í
mildum bjarmanum, og ótal göngustígar lágu þar um
allt kjarrið. Ég hefði viljað fara þangað í göngu með
Strindberg, leiða hann út úr þessu víti nútímans.
Ég mundi hafa sagt honum að ég hefði einusinni
komið til Lundar og hann hefði alveg verið á villigötum með
þann stað.
En ég gerði það ekki.
Ég kom aldrei þarna aftur.

Read more from the October 2011 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.