Skip to content
Support a world of writers. Make your year-end donation to WWB today! Click to donate.
from the June–July 2019 issue

Móðurhugur

Lífið velur aldrei rétta augnablikið til að afhjúpa í fyrsta sinn ástina fyrir þeim sem aldrei hafa hrærst af henni, ekki þegar dagarnir drattast áfram í hægagangi eins og skutbílar í umferðarteppu, heldur þegar brunað er eftir þjóðveginum með rjúkandi heitan kaffibolla í annarri hendi, á leiðinni að hitta vini sína við gamla, yfirgefna herstöð, laumast inn um gat í girðingunni til að hoppa naktir af braggaþakinu í vatnsbólið, en svo er litið yfir á næstu akrein og þar er manneskja sem er alveg jafn mikið að flýta sér, svo lítur hún til hliðar á sama sekúndubroti, og augu mætast, eitthvað gneistar innan í heilanum, vinir, plön og framtíð gleymast, og allt í einu leita á hugsanir um að hið eina rétta í stöðunni sé að klessa bílunum saman og elskast í flakinu.

Í næsta bíl við mig í myndlíkingunni var Jerome sem, eins og hann orðaði það sjálfur, hafði þurft að leiðrétta þann misskilning að hann væri kvenkyns og var kominn mun lengra í þeirri leiðréttingu en ég, búinn að láta taka af sér brjóstin, hafði tekið inn testósterón í tvö ár og hegðaði sér, leit út, og lyktaði alveg eins og sá sem hann var, og mig langaði ekki bara til að vera með honum, heldur vera hann—sleppa samt við háu kollvikin—meira að segja íhugaði ég að hætta í trúarbragðafræði og skipta yfir í tónskáldabrautina þar sem hann var í doktorsnámi, því öll hans innri sjálf komu saman í eina heild, þau héngu ekki utan á honum eins og larfar.

Við kynntumst af því að hann var að semja—ekki tónlist beinlínis heldur hljóðmynd—fyrir leikrit sem ég fór með hlutverk í og bar hið langa og óþjála nafn Scies Sub Ista Tenui Membrana Dignitatis Quantum Mali Iaceat—Þið munið skilja hvílík illska leynist undir þunnu yfirborði sæmdarinnar—sem gaf réttilega til kynna að verkið væri nokkuð tilgerðarlegt, þó að titillinn hefði í raun orðið þessi fyrir tilviljun; áttu að vera einkunnarorðin en leikskáldið, Rhea Wilkins, gat ómögulega fundið titil og þessi tilvitnun í Seneca varð að endingu það eina sem stóð á forsíðunni og rímaði ágætlega við innihaldið, samansafn af stuttum þáttum sem endursögðu grísk-rómverskar goðsagnir sem fjölluðu um kynhlutverk—ég lék vin okkar Attis úr ljóði Catullusar—en Rhea vildi nota fornar goðsagnir til að gagnrýna kynmýtur nútímans.

Hitt hlutverkið sem ég átti að leika, einn af ágengari vonbiðlum Penelópu, hvarf þegar leikritið var stytt um helming—allt sem kom frá Hómer fór sömu leið—svo að ég hafði meiri tíma til þess að hangsa og spjalla, reyndar hafði ætlunin verið að sitja úti í horni og læra, en mér hafði alltaf þótt gott að sitja með tebolla og ræða alla mögulega og ómögulega hluti meðan unnið væri að einhverju í leikritinu sem ég bæri enga ábyrgð á, svo að sá tími sem ég var með nefið í skólabókunum og fingurna á lyklaborðinu styttist hratt og örugglega en á móti fóru að hrannast upp klukkustundirnar sem ég dvaldi með tónlistarfólkinu, og þar með Jerome, en það skemmti sér með sögum og alls konar samkvæmisleikjum, sumum tónlistartengdum—til dæmis með því að spila göngulag einhvers og svo átti að giska á hver manneskjan væri—en líka hefðbundnari samræðuleikjum, til dæmis einum þar sem lýsa átti skálduðum persónum án látbragðs og án þess að nota nokkur orð sem tengjast verkunum sem þær eru í, og ég var mjög góður í þessum leik en Jerome var meistari göngulagstúfanna, hafði yfirhöfuð mjög næma tilfinningu fyrir því hvernig líkamar hreyfðust, bæði sem aðskilin fyrirbæri sem og hvernig þeir fylltu út í og nýttu rými.

Við drógumst saman á dansgólfi, hangsliðið fór allt saman á næturklúbb, sem ég er yfirleitt lítið gefinn fyrir því ég vil heldur dansa einsamall eða með örfáum vinum—þetta var til merkis um að ég var þegar farinn að falla inn í aðdráttarafl Jeromes sem ég var þó ómeðvitaður um—ég hugsaði mig ekki tvisvar um heldur elti hópinn inn á staðinn og út á gólf og var þar lengur en allir aðrir, nema hann, og loks vorum við tveir einangraðir innan um ókunna dansara—líkamar sem urðu að öldu sem umlukti okkur í iðandi svelg holds og hreyfingar—dansspor hans urðu minni, fínlegri, stílhreinni og hægari, þar til hann stóð kyrr og horfði niður og ögn til hægri, hendurnar rétt bifuðust í takt við tónlistina—ég holaðist að innan og fylltist þrumuskýi—ég hafði færst nær eftir því sem dansinn stilltist og lagði hönd á vinstri mjöðm hans, þá tók hann utan um mig, dró að sér, lyfti andliti sínu að mínu og kyssti mig, og rafmagnið sem hafði hlaðist upp undir húðinni, í brjóstkassanum og kokinu, streymdi úr mér í hann.

Ég hefði líklegast haldið sönsum gagnvart honum—þótt vissulega hafi ég strax orðið mjög hrifinn—hefði hann ekki sagt mér strax næsta morgun að hann væri í opnu sambandi, en hann vildi halda áfram að sofa hjá mér, hitta mig, og spurði hvort ég vildi ekki það sama, þá spratt upp í mér arfi afbrýðiseminnar og dreifði sér um huga minn—kæfði aðrar tilfinningar og þrár—svo að ég varð heltekinn af Jerome, fór meira að segja að stæla klæðaburð hans og hreyfingar, og ég vildi eiga hann út af fyrir mig; líf mitt fór að snúast um að ná eignarhaldi yfir honum og tíma hans, allt annað varð aukaatriði, ritgerðir skiluðu sér seint og illa, kennslustundir liðu hjá eins og kúahjörð í þoku—ef ég á annað borð mætti—vinasambönd kæfðust í arfanum því að vinir mínir urðu að sálfræðingum sem þurftu að hlusta á mig tala um og greina Jerome í þaula—þú mátt eiga það að þú nenntir alltaf að hlusta á mig rausa—leikhúslífið hvarf sjónum í óræktarþykkninu, eins og allt annað sem hafði gert mig að mér, og að lokum komst aðeins tvennt að: Jerome og elskhugi hans, Lionel.

Afbrýðin sáði sér enn víðar um hugann þegar Jerome hringdi í mig og sagðist ekki geta komið og hitt mig því að Lionel þyrfti á sér að halda, í fyrsta sinn sem hann gerði það var allt í lagi, ýmislegt getur komið upp á, en þegar hann tók Lionel fram yfir mig í annað sinn skildi ég að líf mitt yrði svona til frambúðar, að ég stæði skör neðar því að Jerome leit svo á að hann bæri ábyrgð á Lionel voru öll önnur áform—allt annað fólk—látin lönd og leið og hann fór til Lionels, sem þurfti ekki annað en að láta blístra í síma Jeromes til að kalla hann til sín þegar eitthvað bjátaði á, þó verð ég sanngirninnar vegna að minnast á það að Jerome gat líka alltaf reitt sig á Lionel, sem leit svo á að sér hefði verið bjargað úr hyldýpinu af sameiginlegum ástmanni okkar.

Jerome hafði kynnst Lionel á borgarbókasafni Boulder en þangað kom Lionel reglulega til að hitta dóttur sína, sem hán hafði misst forræði yfir þegar hán leiðrétti kyn sitt—leit hvorki á sig sem karl eða konu—Jerome fannst safnið þægilegur staður til að vinna að tónverkum sínum, fjarri áreiti háskólasamfélagsins, og eitt sinn veitti hann gaum stirðum samskiptum Lionels við fyrrverandi eiginmann sinn, tók að fylgjast með og fór að þekkja ferlið; beðið eftir dótturinni, spjallað við hana, hún kvödd eða, þegar sá fyrrverandi kom ekki, hvernig Lionel krumpaðist saman innan frá þegar hán gaf upp vonina að fá að sjá dóttur sína þann daginn, en í eitt þeirra skipta gaf Jerome sig að Lionel, sagðist hafa séð hán oft með dóttur sinni, og þau byrjuðu strax að ræða saman á mjög innilegum nótum.

Lionel sendi Jerome vinabeiðni á Facebook, þau fóru að spjalla saman og fljótlega fóru þau að hittast reglulega á kaffihúsi í bænum, en Lionel bjó í kofa inni í skógi, langt uppi í Klettafjöllum—einangrunin var bæði landfræðileg og félagsleg—hafði flutt hingað frá New York til að vera nálægt dóttur sinni þegar fyrrverandi eiginmaður háns fékk stöðu við tölvunarfræðideildina í Boulder svo hán lét langvinna þrá vísa sér leið og flutti í afskekkt hús til að skrifa, en síðan voru fjögur ár og hán hafði ekki eignast nána vini, heldur dvaldi í kofanum sínum og gekk um skóga Klettafjallanna í leit að innblæstri, sem hán fann reyndar, var búinn með handrit að skáldsögu sem hán var sífellt að endurskrifa—ég stalst til að senda sjálfum mér eina gerðina úr tölvu Jeromes þegar ég heimsótti hann á skrifstofuna—um Abelard og Helóísu, eða réttara sagt bara Helóísu, en í sögu Lionels var Abelard tilbúningur hennar, skáldanafn sem hún tók upp til að fá rit sín útgefin, síðan fékk dulnefnið sjálfstæða tilvist og sögur um snilldarlega rökfimi þess fóru vítt og breitt um Frakkland, svo að Helóísa fór að klæða sig upp sem Abelard og hóf að kenna við einn Parísarskólann, en þóttist vera að sækja einkatíma hjá hinum fræga menntamanni til að gera komur sínar í húsakynnin þar sem hún geymdi gervið ekki grunsamlegar, en með tímanum fór hún að vera æ lengur í hlutverki Abelards, leið smátt og smátt betur þannig en sem aðalskonu, þar til grunur frænda hennar um að eitthvað misjafnt væri í gangi milli hennar og kennarans varð til þess að saklaus nágranni hennar var geldur, og hún neyddist til að fara í nunnuklaustur.

Lionel fannst samfélagið vera á móti sér, bæði hið bandaríska almennt og bókmenntaheimurinn—hán var með meistaragráðu í ritlist frá Brooklyn-háskóla en fékk hvergi að kenna og ekkert útgefið—og átti erfitt með að treysta neinum nema Jerome, sem vann traust háns með því að vera alltaf hreinskilinn og opinskár, lýsti ástarævintýrum sínum og leyfði háni að fylgjast með öllu—Lionel kom líka stundum í heimsókn bara til að hlusta á Jerome æfa sig á klarinett—en fyrir utan ástmann sinn og dóttur forðaðist Lionel mannkynið sem mest hán mátti, enda fannst háni samfélagið ýta sér út í skóg.

Mér fannst ég þurfa að kynnast háni, komast að því hver það væri sem héldi Jerome föngnum—tilfinningarnar höfðu stjórn á mér—finna leið til að losa hann úr prísundinni, fá að hafa hann út af fyrir mig—þankagangur sem ég skammast mín fyrir—vandræðalegur en mikilvægur hluti af lífi mínu; ég væri ekki ég án þráhyggju minnar, eða réttara sagt gæti ég ekki verið ég án þeirrar reynslu, því þegar ég eignaðist fyrirmynd í Jerome þá gat ég leyft karlmennsku minni að vaxa eins og eplatré við tæra lind og verða ég sjálfur; áður hafði pabbi verið minn eini vegvísir, en af Jerome nam ég hvernig ætti að hreyfa sig og standa kyrr, hnýta bindi og strauja skyrtur, tala og hlusta.

Til að byrja með hittumst við Jerome ekki mjög oft utan leikhússins, en eftir því sem leið á haustmisserið var ég farinn að heimsækja hann flesta daga, og að lokum dvaldi ég hjá honum allar nætur, nema voru þegar Lionel var í bænum eða þurfti á honum að halda inni í skógi, en afbrýðisemin lá svo þungt á mér að ég gat ekki annað en öfundað Lionel og verið bitur út í Jerome fyrir að skilja mig út undan, svo að æ oftar lagði ég leið mína fram hjá húsinu þegar þau voru saman í von um að sjá til þeirra, án þess beinlínis að hafa ákveðið hvað ég myndi gera ef þeim brygði fyrir.

Aldrei varð ég var við þau í þessum framhjágöngum, en einn daginn sá ég tölvupóst frá Lionel til Jerome—ég stalst í bréfið meðan Jerome var að búa til te—þar sem hán mæltist til að þau hittust á kaffihúsi sem hét Erhard's og var nokkuð langt frá miðbænum og háskólanum—í fyrstu ætlaði ég ekkert að njósna en forvitnin náði tökum á mér—eftir að Jerome hafði skilið við mig hjá skólabyggingunni þar sem ég átti að fara í tíma, fór ég á kaffihúsið í stað þess að mæta í kennslustundina—tók næsta strætó á eftir honum—um leið og ég var kominn þangað vissi ég að ég hafði gert mistök, þetta var lítið kaffihús, eiginlega bakarí með nokkrum borðum fyrir gesti, í verslunarkjarna þar sem hver búð sneri út að bílastæði, þannig að ég gat hvergi falið mig, og staðnæmdist því nokkuð langt í burtu; sýndist mér sá þau tvo sitja við borð ásamt lítilli stúlku—líklega dóttur Lionels—og rölti svo til baka í átt að háskólanum.

Ég fer hjá mér þegar ég hugsa um þessa asnalegu hegðun en samt ákvað ég að ganga enn lengra, því þegar ég komst að því með póstnjósnum að Lionel ætlaði upp í fjöll með Jerome einsetti ég mér að elta; ég vildi sjá þau saman svo að ég gæti skilið hvers vegna Jerome tæki Lionel fram yfir mig; þurfti bara að útvega mér bíl og svo varð ég líka að klæða mig þannig að Jerome myndi ekki þekkja mig úr fjarlægð.

Eftir að hafa spurt nokkra vini hvort ég gæti fengið lánaðan bíl—meira að segja bjó ég til þá óþarflega flóknu afsökun að frændfólk mitt ætti tólf tíma stopp á flugvellinum í Denver og ég ætlaði með þau í skreppitúr í Klettafjöllin—þá sagði Cynthia mér að ég gæti fengið Corolluna hennar ef ég skilaði henni þveginni og fyllti á tankinn, síðan fór ég og keypti gamla, ljóta peysu og stóra ullarhúfu, það var óþarfi að gera mikið meira en svona til öryggis greip ég gervigleraugu úr leikmunageymslunni, svo og tebrúsa og kexpakka að heiman.

Biðin var ekki löng því að Lionel kom á pallbílnum sínum fimm mínútum eftir að ég lagði smáspöl neðar í götunni, og Jerome kom strax út—yfirleitt lét hann mig bíða—og þau lögðu af stað og ég á eftir, óku beinustu leið út úr bænum og upp í Klettafjöll, sem voru farin grána lengst niður í hlíðar, og allt í einu fattaði ég að ég hafði hvorki hugmynd um hvar Lionel bjó, né hvort þau ætluðu beint heim til háns; ég hafði einbeitt mér svo mikið að því hvernig ég ætti að fara að því að elta þau að ég hafði ekki hugsað út í ferðina sjálfa nema það eitt að hafa að minnsta kosti einn bíl á milli okkar, sem var ráð sem ég hafði þegið frá glæpasögum.

Lionel keyrði hlykkjóttan veg eftir dalbotni sem lá fyrst inn á milli hæða en brátt voru brött, skógi vaxin fjöll beggja vegna bílsins og í hvert skipti sem þau hurfu fyrir eina bugðuna varð ég hræddur um að missa af þeim, sem gerðist þó ekki, og að lokum komum við að stíflunni og uppistöðulóninu sem Nederland stendur við, en þau héldu áfram gegnum bæinn og upp í fjöll, og ég fylgdi eftir á Corollunni, lengra og lengra upp í fjallgarðinn—það byrjaði að snjóa—og eftir því sem vegurinn varð mjórri og hlykkjóttari missti ég oftar sjónar á þeim bak við trjáþykknið en fann þau ávallt aftur, þar til þau voru allt í einu horfin.

Í fyrstu fór ég áfram dágóðan spöl í von um að finna þau en sannfærðist fljótt um að þau hefðu beygt af veginum einhvers staðar, svo ég sneri bílnum við og keyrði hægt til baka og reyndi að skima eftir slóðum sem lágu inn í skóginn, og fljótlega rakst ég á einn, en þegar ég hægði á mér til að athuga hvort ég sæi einhver ummerki um bíl kom ég auga á annan slóða neðar, og þannig koll af kolli því að á þessum stutta spotta sem ég ók til baka var fjöldinn allur af slóðum inn í skóginn, og víða mátti sjá hjólför í nýföllnum snjónum.

Ég vildi ekki gefast upp og ákvað að keyra eftir slóða með hjólförum sem mér virtust líkleg til að vera af pallbíl—nú skil ég ekki hvernig ég taldi mig geta vitað það—í fyrstu gekk það mjög vel, en svo fóru hjólin á Corollunni að missa gripið og spóluðu aðeins, samt hélt ég áfram, vildi ekki hafa eytt öllum þessum tíma og orku í að elta þau uppi til þess eins að missa þau frá mér á síðustu metrunum, en svo endaði slóðinn við gamlan veiðikofa—enginn bíll—Jerome og Lionel hvergi sýnileg.

Mér brá—brast næstum í grát—fór út úr bílnum til að athuga hvort vegurinn héldi kannski áfram, en svo var ekki, hjólförin enduðu—réttara sagt byrjuðu—við kofann og það var ekkert að sjá gegnum hríðarkóf nema skóginn allt í kring; , svo ég sneri við og fór til baka, en kom fljótlega að stað þar sem slóðinn kvíslaðist, ók spölkorn eftir hliðarslóðanum, stöðvaði bílinn, stökk út, fullvissaði mig um að þar hefði enginn farið um, settist svo aftur inn, bakkaði að aðalslóðanum, skipti um gír, en þegar ég ætlaði af stað fór bíllinn að spóla, kipptist svo áfram, endaði út í kanti og ég kom honum hvorki aftur á bak eða áfram, og þegar ég tók upp símann til að kalla á hjálp náði ég ekki sambandi—bjargarlaus fastur inni í skógi—ofankoman var orðin að hríð, endalausum flaumi af hvítum flekkjum sem féllu á furutrén, Corolluna, og mig.

Ég vissi ekki hvað ég átti að gera í þessari klemmu minni þar sem ég hafði lært að keyra að sumri til í Issaquah, hafði aldrei þurft að hugsa út í hvernig ætti að losa bíl sem var fastur í snjó—aldrei verið kennd rétt handtök—í Nýja Englandi, þar sem ég hefði kannski getað lært það, keyrði ég aldrei, fór varla upp í fólksbíl, fór varla út fyrir lóðarmörk skólans því að þar leið mér vel, en nú vildi ég hafa prófað að keyra í snjó, bara til að vita hvort ég væri í miklum vandræðum eða bara smávægilegum, en ég upplifði mig algerlega hjálparlausan, jafnvel í lífshættu.

Bíllinn var í lausagangi meðan ég sat og íhugaði hvað væri best í stöðunni, en fyrsta ágiskun mín—það er ekki hægt að kalla það ákvörðun—var að líklegast væri þessi slóði fáfarinn, svo að ég ákvað að best væri að ganga til baka út á veginn sem ég hafði beygt út af, sérstaklega þar sem ég var hræddur um að ef ég biði morguns myndi snjóa yfir hjólförin og fönnin jafnvel verða illfær, og enn var nokkuð eftir af deginum, þannig að ég fór í úlpuna yfir peysuna—sem ég þakkaði forsjálninni fyrir að hafa keypt—tók af mér gervigleraugun, setti á mig húfu og hanska, slökkti á Corollunni, fór út, greip hitabrúsann og kexpakkann, hélt af stað út í hríðina, og varð allt í einu helltust yfir mig áhyggjur af bílnum hennar Cynthiu, en mér tókst að hrista þær af mér þar sem ég vissi að hún yrði fyrst til að segja mér að hafa ekki áhyggjur af dauðum hlutum, að ef ég hefði dáið vegna þess að ég hefði ekki viljað skilja ökutækið hennar eftir, þá hefði hún elt mig inn í handanheima eins og veiðibráð.

Gangan gekk vel, hjólförin vísuðu mér leið og ég varð fljótt fullur öryggis, hefði jafnvel blístrað ef snjókornin hefðu ekki kælt eldmóðinn, en ískrandi sporin urðu örari, brátt sóttist gangan nokkuð vel og ég var orðinn viss um að ég myndi fljótlega komast út á veginn, en hægt og rólega urðu hjólförin ógreinilegri, smám saman dimmdi, sjálfsöryggið þraut og mér hætti að lítast á blikuna, hugsaði til þess að gott hefði verið að hafa þig við hlið mér í stórhríð, Íslending sem vissi hvað ætti að gera við aðstæður sem þessar.

Umhverfið kringum mig myrkvaðist snögglega, mun fyrr en ég átti von á—ég hafði ekki hugsað út í það að í fjöllunum hverfur sólin bak við tind löngu áður en hún hnígur til viðar—fljótlega sá ég ekki neitt nema það sem lýstist upp þegar ég tékkaði á því hvort síminn næði sambandi—sem var ekki—mér var orðið kalt, og allt í einu gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd hve lengi ég hefði keyrt eftir slóðanum eða hve langt frá veginum ég hefði farið, allri einbeitingunni var beint að því sem fram undan var og ummerkjum sem bentu til þess að Jerome og Lionel hefðu farið þar um, svo að ég hafði ekkert spáð í klukku eða mílumæli, en nú skildi ég hvílíka hættu ég var kominn í, og að ég hefði verið leiddur hingað af eigin þráhyggju—leyft sjálfum mér að vera afbrýðisamur vitleysingur—og nú gæti ég dáið vegna eigin heimsku, svo að ég settist niður með bakið upp að tré, setti fótleggina undir gömlu peysuna, grúfði hausinn ofan í hálsmálið og hreyfði mig aðeins til að fá mér tesopa og narta í kex, meðan ég hugsaði um að nú myndi ég kannski deyja, að í fífldirfsku minni hefði ég komið mér í lífshættu, að ég myndi kannski frjósa í hel undir tré við vegarslóða hátt uppi í Klettafjöllum, bara af því að ég varð heltekinn af manneskju sem ég hafði aldrei hitt, elskhuga ástmanns míns.

Það var um tvennt að velja: Ég yrði að ná aftur tangarhaldi á lífinu eða ég myndi deyja, annaðhvort núna eða seinna, þegar ég tæki aftur ákvörðun blindaður af þráhyggju, svo að ég ákvað að hætta að elska Jerome, hætta að hugsa um Lionel, og hætta að lifa fyrir aðra, lifa heldur fyrir sjálfan mig, svo að ég afneitaði Jerome, ég afneitaði ástinni, afneitaði valdi tilfinninganna yfir mér.

Til að stappa í mig stálinu fór ég að ímynda mér að ég væri Súpermann, örmagna af þreytu eftir að hafa bjargað jörðinni frá innrás einn míns liðs, og væri nú að jafna mig af sárum mínum í skógi nálægt bóndabænum þar sem ég hafði alist upp þegar uppeldisfaðir minn birtist út úr kófinu og settist hjá mér, klæddur flannelskyrtu, gallabuxum og í grænum stígvélum; vitandi vel að hann væri draugur, enda höfðu óvinir mínir oft myrt hann með köldu blóði, en hann lagði hönd á öxl mína og við rifjuðum upp æskuár mín þegar allir héldu að ég væri jarðarbúi.

Ég vaknaði kaldur og stífur, gleypti í mig það sem eftir var af kexi, drakk síðustu dropana af teinu og reyndi að ganga á eftir slóðanum, sem var svo sem ekki hægt þar sem hann var með öllu ósýnilegur, en tálsýnin hélt mér á fótum, og brátt heyrði ég bílhljóð og gekk fram á veginn sem ég hafði beygt út af daginn áður, veifaði uppnuminn af gleði, hjón um sextugt á jeppa stoppuðu, fóru með mig til baka að bílnum hennar Cynthiu, kipptu honum upp á slóðann og þegar ég keyrði heim fannst mér sem ég hefði hreinsast um nóttina, allt sem var ekki ég var horfið, ekkert eftir nema Abel, nema allt það sem ég er.

Á leiðinni niður úr fjöllunum kom til mín sú hugsun að manneskjur eru ekki ein órofa heild, heldur er heilinn samansafn ótal stöðva og eininga í flóknu kerfi samvinnu og samkeppni, rökhugsunin er bara einn þáttur, en þar sem námsárin fara í að læra að vera hugsuður—rökrænn og gagnrýninn—er það nánast eðlislægt að prísa lógík framar öllu öðru sem í huganum býr, ég hef ég alltaf haft tilhneigingu til að líta á líkama og sjálf sem eina órofa heild, eina persónu; en ég er ekki persóna, heldur margradda lýðræði þögulla hvata því að enginn er sammála sínu innra sjálfi, vegna þess að sjálfin eru mörg og enginn einn hugur bindur þetta allt saman, heldur er hugurinn froða sem þyrlast upp á yfirborði heilans þegar þessi kerfi og einingar flæða saman eins og Kyrrahafið og Atlantshafið um Magellansund.

Í sínu náttúrulega ástandi er manneskjan einfaldlega sú sem hún er, en með samfélaginu varð til flækja af hlutverkum, sjálfsmyndum og lífstilgangi, allt í mótsagnakenndri formgerð sem fólk vefur saman í siðmenningu sem er hlutgerð í borgum, hofum, skrift og myndum, og svo á netinu þar sem hver einstaklingur fær sína persónulegu hlutgervingu í bloggi, myndböndum og á Facebook; öllum manneskjum hlotnast rafeindasálir sem hafa sjálfstæða tilvist og geta lifað af dauða líkamans eins og draugar sem er bara hægt að kveða niður með því að eyða öllum upplýsingum, en í siðmenningu er það alltaf glæpur að eyða upplýsingum—aðeins verstu illmenni brenna bókasöfn—en ég óskaði þess stundum að ég gæti þurrkað út mína eigin rafeindasál og reynt að finna eitthvað til að fylla upp í tómið, fundið eilíft líf annars staðar en í gagnagrunnum, já, eða hent mér út í tómið og séð hvað er handan þess.

Read more from the June–July 2019 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.