Skip to content
It’s not too late to support our 2020 WWB Virtual Gala fundraiser. Click to donate!
from the October 2011 issue

Sálnagleypir

Þessi saga hefði sómt sér sem þúsund og önnur nótt.

Á fyrsta áratug síðustu aldar bjó í Reykjavík kaupmaður

sem seldi gamlar og nýjar mublur í verslun sem hann rak

á götuhæð í húsi sem kona hans átti við Tjörnina. Hann

keypti einnig gömul og ný húsgögn frá Kaupmannahöfn og

fékk þau send með skipi til Reykjavíkur. Húsið stóð skammt

frá Iðnó þar sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi sjónleiki.

Þegar lítið var að gera í versluninni sat kaupmaðurinn

oft úti við gluggann því hann hafði gaman af að fylgjast

með mannlífinu og einkum þó og sér í lagi glöddu ungar og

fallegar stúlkur augu hans.

Sjálfur var þessi maður jafn fríður og kona hans var ófríð.

Oft barmaði vesalings maðurinn sér yfir því við þá sem

heyra vildu að hann skyldi hafa glapist til þess að taka sér

til eiginkonu slíkt forað en þar hafði ráðið mestu það mikla

fé sem hann fékk greitt með henni í heimanmund. Svo

mjög var föður hennar í mun að losna við hana. Þau hjónin

áttu fátt sameiginlegt nema ást á sjónleikjum.

Kaupmaðurinn gat aldrei um frjálst höfuð strokið. Hvern

dag og hverja stund gat hann heyrt fótatak konu sinnar af

hæðinni fyrir ofan.

Á þeirri tíð voru margar revíur settar upp í Iðnó og þau

hjónin sáu þær allar. Ein sú vinsælasta hét Ævintýri á

gönguför, mannmörg sýning og umtöluð. Leikfélagið hafði

bætt við aukaleikurum og meðal þeirra var ung kona, smágerð

en fríð, og var yndisþokki hennar slíkur að hún var

kölluð sá svarti senuþjófur þótt hár hennar væri hið bjartasta

sem sést hafði á sviði.

Hún stal hjartanu úr kaupmanninum á fyrstu sýningunni

og síðar reyndar sálu hans en um það fjallar sagan.

Hann fór að sæta lagi að sitja sem oftast við gluggann

þegar hún fór til æfinga eða sýninga hjá Leikfélaginu.

Stundum var hann svo lánsamur að sjá hana. Og svo var

það einn dag þegar hún gekk hjá í öllum sínum glæsileik að

hann opnaði hurðina og dró saman kjark til þess að ávarpa

hana á ósköp venjulegan máta: – Það er gott veður í dag,

ungfrú.

Hún nam staðar og áttaði sig á því að þessi myndarlegi

maður með þykka yfirskeggið sem stóð í búðardyrunum

hafði verið að ávarpa hana og svaraði: – Já, það er reyndar

satt, það er óvenju yndislegt veður í dag.

Hún gekk yfir götuna og brá sér inn í búðina því hún

hafði gott auga fyrir fallegum húsgögnum, ekki síður en fyrir

fallegum mönnum.

Þau áttu líflegt spjall um húsgögn og leiklist og úr varð

að hann læsti búðinni um miðjan dag og bauð henni á

kaffihús. Þau fengu sér kaffi og hvort sína Napóleonskökuna

og hann hafði aldrei séð bita af slíku góðgæti hverfa í

jafn yndislegan munn.

– Vantar þig ef til vill aukavinnu í verslun? spurði hann.

En þá setti hún á sig snúð og sagðist ekki geta dvalið svo

lengi á einum stað.

Hann hefði átt að láta það svar sér að kenningu verða.

Einn sumardag, ekki alllöngu síðar, kom skip til landsins

og í lestum þess, ásamt öðrum varningi, voru húsgögn

til kaupmannsins. Eins og hann var vanur réð hann sér

verkamenn til þess að aka þeim á hest- og handvögnum

frá höfninni.

Margir forvitnir bæjarbúar komu til þess að skoða næstu

daga eftir að hann hafði stillt upp í búðinni og sumt seldist

og sumt ekki eins og gengur. Ein af þeim mublum sem

var óseld var forláta spegill í ramma úr mahóní. Mahóníramminn

var mótaður sem mannsandlit, mjór hið neðra

en ennisbreiður að ofanverðu og útskot beggja vegna sem

minntu á eyru.

Þegar kaupmaðurinn hafði læst versluninni þetta kvöld

og varð hugsað til leikkonunnar ungu, andvarpaði hann:

– Ó, sá sem væri frír og frjáls og gæti fært henni daglega

rauðar rósir. Sá maður væri hamingjusamur.

Um leið heyrði hann sagt dimmri röddu: – Mín náttúra

er sú að ég uppfylli óskir manna.

Og í sömu andrá sá hann leikkonuna ungu ganga meðfram

Tjörninni og hún veifaði honum glaðlega.

Og rétt í þessu gekk konan hans inn um dyrnar og sjaldan

hafði hún sýnst honum ófríðari, hún minnti hann á

stórtennta horaða hryssu.

Hann spurði: – Varstu að ávarpa mig rétt í þessu, kona

góð?

Hún svaraði: – Ertu orðinn galinn, maður? Ég hef ekki

sagt eitt aukatekið orð. Verður þú mér samferða upp? Ég

sendi þjónustustúlkuna að kaupa inn til kvöldverðar.

– Ég á eitt og annað eftir ógert, sagði hann mæðulega.

– Ég kem strax að verki loknu.

Hún skimaði til Tjarnarinnar eins og hún ætti von á að

sjá bjarthærðu leikkonuna úr Ævintýri á gönguför fara hjá.

Þegar hún var gengin upp settist kaupmaðurinn á stól og

stundi á nýjan leik: – Ja, sá sem væri frír og frjáls!

Og þá mælti dimma og ráma röddin sem fyrr hafði talað:

– Mín náttúra er sú að uppfylla óskir manna.

Kaumaðurinn reis á fætur felmtri sleginn. Hann litaðist

um í búðinni og spurði: – Er einhver hér? Hver er sá sem

ávarpaði mig rétt í þessu?

– Nafn mitt er Sálnagleypir, sagði röddin, – og ég bý í

spegli þínum.

Kaupmaðurinn hefði mátt draga nokkra ályktun af þessu

nafni en girnd hans til leikkonunnar var of mikil.

Hann leit í spegilinn og jafnvel þótt færustu sagnaritarar

Persa væru samankomnir í einn stað til þess að gæða lífi

þá mynd sem hann sá, þá er alls óvíst að þeir gætu komið

henni til skila með orðum svo að lesandinn mætti sjá

það sem kaupmaðurinn sá. Í spegilmyndinni dró sig saman

andlit, smátt í fyrstu en síðan þandist það út og fyllti

spegilinn. Það var mynd fríðleiksmanns en augnaráðið var

heldur háskalegt.

– Og hvað þarf ég að gera til þess að fá óskir mínar uppfylltar?

spurði kaupmaðurinn.

– Taka þér bústað hér í speglinum eftir dauðann svo að

ég megi reika fram og aftur um jörðina, sagði Sálnagleypir.

– Að dvelja þar eftir dauðann getur tæpast verið verra

en að dvelja hér, sagði kaupmaðurinn. – Og feginn vildi

ég að þú værir laus úr speglinum og eiginkona mín komin

í þinn stað.

Í sömu andrá kom með asa inn í verslunina einn af verkamönnunum

sem ekið hafði hestvagni fyrir kaupmanninn.

Ekillinn hrópaði í skelfingu: – Ó, herra kaupmaður, það

hefur orðið skelfilegt slys! Ég var að aka varningi þegar ég

kom auga á konu þína sem gekk Lækjargötuna og af einhverjum

óskiljanlegum ástæðum hnaut hún þegar ég átti

leið hjá og höfuð hennar, æ, mig auman, lenti undir vagnhjólinu

og molaðist. Hún er látin og hefur þegar verið flutt

í líkhúsið.

Við þessi tíðindi settist kaupmaðurinn á stól og greip

fyrir andlitið og hristist og skalf. Bæjarbúar hópuðust að

glugganum og horfðu á hann með hluttekningu og vöknaði

mörgum um augu er þeir sáu manninn gráta svo ákaft. En

sannleikurinn var sá að hefði hann tekið hendur frá augum

hefði þeim brugðið illilega því kaupmaðurinn hristist og

skalf af kæti.

Eftir drykklanga stund reis kaupmaðurinn á fætur og

dró fyrir gluggana. Hann gat ekki betur séð en mótaði fyrir

andliti konu sinnar í speglinum. Hún var ráðvillt að sjá

eins og hún vissi ekki hvar hún væri niðurkomin en þegar

hún kom auga á hann tók hún viðbragð og honum heyrðist

hún segja: – Fáðu þér enga stúlku í minn stað!

Eða kannski var þetta bara misheyrn.

Hann tók spegilinn í fangið og bar hann upp á háaloft og

læsti hann þar inni í herbergi og dró tjöld fyrir gluggana.

Um leið og hann lagði af stað til dyranna braust andi konu

hans sálugu að hálfu út úr speglinum og teygði sig til hans,

slík var þrá hennar eftir að vera meðal hinna lifandi. Hann

tvílæsti á eftir sér.

Þegar tilhlýðilegur tími var liðinn fór hann mjög að

sækja sjónleiki hjá Leikfélaginu og undraðist enginn að

vesalings maðurinn vildi lyfta sér upp í harmi sínum.

Og ekki leið á löngu þar til sást til hans leiða eina helstu

stjörnu leikhússins, fínlega og bjarthærða, um götur bæjarins

á sunnudögum. Hún gekk með regnhlíf en hann var

í hvítum alklæðnaði. Og eftir skamma hríð gerðu þau veglegt

brúðkaup sitt.

Og þegar unga konan var orðin húsmóðir víxlaði hún

húsgögnum af efri hæðinni við þau sem henni þóttu falleg-

ust í búðinni. Einu hélt hún þó eftir en það var hjónarúmið.

Hún naut þess að elska mann sinn í hvílu sem átt hafði

önnur kona.

Hún tók við versluninni þegar fram liðu tímar. Hún

var hagsýn og hagur þeirra blómgaðist og margt eitt skipið

sigldi nær fullfermt með varning til þeirra frá útlandinu.

Og hún var geðþekk og margir bæjarbúar seldu og skiptu

við hana. Og sumir þeirra voru ungir menn.

Maður hennar var afbrýðisamur og bannaði henni að

koma fram hjá Leikfélaginu þar sem fyrsti og annar bekkur

voru jafnan þéttsetnir yngissveinum þegar hún stóð á sviðinu

og því fór svo að kátínan hvarf úr hjónabandi þeirra

því fátt er heimskulegra né kemur verr niður á mönnum

en það að vilja eiga konur sínar með húð og hári, sem og

sérhverja hugsun þeirra.

Og ekki þótti henni skárri sá siður manns síns að fylgja

henni eftir um húsið hvert fótmál.

Hún greip stundum til þess ráðs að læsa að sér í efsta

herbergi hússins til þess að hafa stundlegan frið. Herbergið

var myrkt og óvistlegt og ekki stólgarmur til þess að sitja

á. Þar var ekki annað húsgagna en gamall spegill. Þarna

stóð hún löngum og vék gluggatjöldunum frá með fingri og

gægðist út. Hún sá á þak leikhússins og minntist með söknuði

þeirra daga þegar augu ungra manna hvíldu á henni þar

sem hún fór með hvert hlutverkið á fætur öðru í frægum

söngleikjum og sorgarverkum. – Ó, ef ég gæti um frjálst

höfuð strokið, andvarpaði hún einn daginn. – Ég væri til

í að láta sál mína í skiptum fyrir það eitt að vera laus við

eiginmann minn.

Hún hafði einmitt þennan dag stjórnað flutningi á

vörufarmi til verslunarinnar frá höfninni og ekki var

hún fyrr komin niður í búð en ekillinn kom hlaupandi

inn og æpti: – Ó, það hefur orðið mikil ógæfa, húsmóðir

góð! Ég var á leiðinni heim með hlass þegar ég sá manninn

yðar ganga góðglaðan eftir Lækjargötunni, hann var

nokkuð reikull í spori og veifaði til mín. Ég átti von á

því að hann vildi fá far með mér heim svo ég tók í tauminn

en um leið hnaut vesalings maðurinn þinn við og

lenti með höfuðið undir vagnhjólinu. Hann hefur þegar

verið fluttur í líkhúsið.

Þegar þetta spurðist um Reykjavík þóttu það mikil undur

og stórmerki að kaupmaðurinn skyldi farast á sama hátt og

fyrri kona hans. En ef til vill var það ekki svo skrítið þegar

allt kom til alls, sagði fólkið. Þau höfðu verið svo samrýmd.

Hann saknaði hennar og var tekinn upp á því að staupa sig

fullmikið á Hótel Reykjavík í seinni tíð og var oft reikull í

spori á leiðinni heim.

En mikil var iðrun þess vesalings manns sem ekið hafði

yfir hann.

Hann kom í verslunina næsta dag til þess að biðjast

fyrirgefningar og einnig þarnæsta dag og svo hinn þriðja.

Ekkjan unga sá loks á honum aumur og gat ekki fengið af

sér annað en að hugga hann.

Þegar hún reis úr rekkju og horfði yfir líkama sinn og sá

hversu fagur hann var leit hún á ökumanninn sem hvíldist

í rúminu og sagði: – Þú ert heljarmenni að burðum. Ég

vil að þú berir fyrir mig spegil hér ofan af loftinu og rekir

nagla í vegginn og hengir hann upp í svefnherberginu svo

ég megi spegla mig og hafa sjálf af því yndi hve fögur ég er.

Það er ekki sanngjarnt að aðrir sitji einir að því.

Hann gerði sem hún bað. Og hún hóf aftur leiklist sína

og varð af því hamingjusöm og hélt æskuþokka sínum og

fegurð um mörg ókomin ár.

Aldrei gekk hún aftur í hjónaband en hún átti margan

elskhugann sem hún naut í hjónasænginni og spegillinn

stóri gladdi bæði þá og hana.

Ekkert þeirra vissi að þar hímdu nú maður hennar og

fyrri kona hans.

En það er af Sálnagleypi að segja að allt til þessa dags

arkar hann fram og aftur um jörðina.

 

©Ólafur Gunnarsson. All rights reserved.

Read more from the October 2011 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.