Skip to content
Join us for The Queer Issue X: A Reading and Party! July 2, 6:30PM–8:30PM | Unnameable Books in Brooklyn, NY
from the October 2011 issue

Orðanna hljóðan

Einu sinni var bær þar sem engir tveir töluðu sama mál. Enginn notaði sama orð um eitt eða neitt. Þrátt fyrir það skildu allir alla og lifðu saman í sátt og samlyndi. Til þess var tekið hvað íbúarnir voru glaðlyndir, hjartanlegir  og  — þótt ótrúlegt megi virðast — ræðnir. Bærinn var í ónefndu héraði í Miðevrópu miðri. Það var ónefnt af því það var löngum svo afskekkt að landsvæðinu var best lýst sem svartholi á landakortinu. Oftast var því þó alls ekki lýst.

Á endanum fór þó svo að umheimurinn áttaði sig á þessu sérkennilega fyrirbæri, en jafnvel hinir færustu málvísindamenn treystu sér ekki til að skýra það til hlítar.

Og  allra síst gátu bæjarbúar sjálfir lagt þar neitt af mörkum. Fyrir þeim var svo eðlilegt og sjálfsagt að hver og einn maður talaði sérstakt mál að þeir leiddu ekki einu sinni hugann að því. Viðtekið er þó enn sem komið er að skýringin hafi verið sumpart landfræðileg og sumpart pólitísk. Bærinn sem hér segir frá hafði eins lengi og vitað var staðið á mörkum fjölmargra landa. Í tímans rás hafði hringekja sögunnar látið hann staldra við í öllum þessum löndum um lengri eða skemmri tíma, sumum oftar en einu sinni. Hann hafði í ríkari mæli en öll önnur svæði jarðar verið bitbein heillar halarófu aðliggjandi og aðsteðjandi þjóða og ríkja, sniðmengi og hlutmengi, bakmengi, faldmengi og fyllimengi ótal stærri eða smærri pólitískra heilda sem hafist höfðu og hnigið gegnum aldirnar: Hertogadæma, stórvelda, keisaradæma, þúsundáraríkja, lýðvelda, fríríkja, sæluríkja og hvers kyns ríkjabandalaga, heilagra og vanhelgra  að fornu og nýju. 

  Sagnfræðingur einn sem sérhæfði sig í gerð söguatlasa kvað eitt sinn hafa reynt sig við það vonlausa verk að draga upp kort sem sýna skyldi þróun landamæra á svæðinu. Eftir margra ára starf sat hann uppi með óleysanlega flækju á landabréfi sem minnti helst á sniðaörk úr svellþykku Burda-saumablaði, enda misgreip konan hans sig á kortinu og tókst án vandkvæða að sauma upp úr því buxnadragt, úlpu og tvo samkvæmiskjóla áður en mistökin urðu ljós.

Bæjarmenn höfðu því margra alda reynslu af öllum blæbrigðum þekktra stjórnarhátta. Þeir höfðu kynnst einræði, alræði, gerræði, lýðræði og óræði, svo fátt eitt sé nefnt. Í öllu því umróti sem slíkum hringlanda fylgir, svo sem kúgun og kúvendingum, uppstokkun og uppreisnum, hafa íbúarnir snemma tekið að  þreytast á því að þurfa sífellt að skipta um tungumál eftir því undir hverja þeir heyrðu hvernig og hvers vegna hverju sinni. Á endanum hefur þeim orðið ljóst að tryggast væri að hver og ein persóna ætti sitt eigið mál sem enginn gæti frá henni tekið. Þetta má að sínu leyti kalla sálfræðilega varnarhætti: Sérhver maður tekur í ótryggum heimi að halda dauðahaldi í kjarnann í sjálfum og leitast ósjálfrátt við að rækta það mál sem stendur honum nær en móðurmálið: Sjálfsmálið, málið sem hann hugsar á. Hver gæti líka bannað það eða vegið að því?

 

Þetta kann að hafa verið skýringin. Ef til vill var hún allt önnur, ef til vill engin. Íbúarnir vissu það ekki og, eins og ég segi, vissu ekki einu sinni að eitthvað væri þar að vita. Máltaka barna fór sársaukalaust fram á sama hátt og alstaðar annarsstaðar: Svo læra börnin málið að fyrir þeim er haft. Sérhvert ungbarn sem smátt og smátt vaknaði til vitundar um sjálft sig sem einstakling skynjaði í fyllingu tímans að móðir þess talaði eitt mál og faðirinn annað. Eldri systkini töluðu hvert sitt mál. Afi talaði eitt mál, amma annað. Barnfóstrur komu og fóru, hver og ein með suss eða bí á nýrri tungu. Úr hjali hvers barns þróaðist því sérstakt persónulegt tungumál sem barnið af eðlisávísun skynjaði að þurfti fyrst og fremst að vera öðruvísi en allra hinna. Í því lá skyldleikinn.

 

Þannig hafði þetta alltaf verið þegar hér var komið sögu. Orðin sjálf voru bæjarbúum því ekki tæki til tjáskipta af því tagi sem við þekkjum þau úr öðrum ævintýrum.   Mælt mál þeirra var ekki kerfi þar sem samkomulag ríkir í aðalatriðum um merkingu hvers orðs heldur var það miklu fremur speglun á vitund mælenda og aðeins einn fjölmargra jafngildra þátta sem beitt var til að koma öðrum í skilning um kenndir og óskir, tilfinningar og tilætlanir. 

 

Enginn skilningur orðanna var því „bókstaflegur“ heldur var merkingunni komið áleiðis til næsta manns með flóknu samspili augnaráðs, svipbrigða og handapats og blæbrigða í rómi þegar borin var fram hver klasi fónema sem einungis hafði algilda merkingu fyrir þeim sem talaði. En þessi háttur mótaði auðvitað alla hegðan íbúanna þannig að þeir gátu tjáð allt sem máli skiptir jafngreiðlega og aðrir, en þurftu hins vegar að lifa sig mun dýpra inn í jafnt sjálfa sig sem aðra ef svo átti að geta orðið. Fyrirkomulag sem í fljótu bragði virðist til þess fallið að stía fólki sundur og efla sérgæði reyndist þannig virka þvert á móti: Gagnkvæmt „skilningsleysið“ varð til þess að efla skilning og eindrægni.

 

Engar orðabækur voru því til og reyndar alls engar bækur eða bókmenntir sem skráðar yrðu. Eðlilega, bæjarbúar voru að sjálfsögðu allir ólæsir, enda hefði hver maður ekki getað skrifað fyrir neinn annan en sjálfan sig. En samt var enginn hörgull á sögum, ljóðum og leikverkum. Hvernig hefði fólkið líka átt að komast af án þess.  Allur skáldskapur var í hávegum hafður, en birting verka hlaut því að vera munnleg, líkamleg og verkleg. Líkt og í annarri orðræðu voru látæði, fas og tjáningarháttur þrungin merkingu. En þó orðin sjálf hefðu ekki sértæka merkingu nema fyrir skáldið sjálft, skipti orðanna hljóðan engu að síður miklu. Fólk hafði afar næmt eyra fyrir því að vissir einstaklingar, þar á meðal öll bestu skáldin, töluðu einstaklega fagurt mál, þeas höfðu í máli sínu sérlega hljómfagrar samstæður og fluttu þær með fegurri og  skemmtilegri hætti en aðrir.

 

Þannig undu bæjarbúar glaðir við sitt  langt fram eftir síðustu öld. Þeir voru iðjusamir og nægjusamir og sjálfum sér nógir, lifðu fyrst og fremst á landbúnaði sem stundaður var í úthverfum bæjarins. Lengst af á þeirri öld höfðu þeir heyrt undir áhrifasvæði stórveldis sem ekki var beinlínis orðað við frelsi og lýðræði, en voru látnir í friði af því þeir sáu alveg um sig sjálfir og voru ekki til vandræða. Sömuleiðis var það svo að ekki örlaði  á neins konar þjóðernishyggju hjá þessu fólki. Stórveldið gat því andað rólega og nennti ekki einu sinni að troða sinni eigin tungu upp á, hvað þá upp í bæjarbúa. Þeir fáu eftirlitsmenn sem sendir voru á staðinn eða ferðamenn sem villtust þangað veittu því reyndar athygli að þetta myndarlega og þriflega fólk virtist allt saman ólæst. Það var að vísu ekki í samræmi við hugmyndafræði stórveldisins sem í orði kveðnu lét sér mjög annt um menntun þegnanna. En þetta var látið kyrrt liggja vegna þess að ekki var hægt að hafa upp á nokkrum sérfræðingi í meintu tungumáli þeirra. Aðkomumenn fyrr og síðar, sem skildu auðvitað ekki eitt orð sem talað var í gjörvöllum bænum stóðu nefnilega í þeirri trú að um eitt tungumál væri að ræða. Það var svo sem eðlileg ályktun þegar þeir urðu vitni að þeim skilningi og eindrægni sem ríkti meðal íbúanna eða urðu vitni að líflegri „bók“menntahefð þeirra.

    Í ýmsum ferðabókum fyrri alda má sjá vikið að þessu. Höfundarnir harma þar einatt að þeir skuli ekki ná neinum tökum á máli (svo!) heimamanna sem bersýnilega sé mjög erfitt og flókið og illt að henda reiður á, meðal annars vegna skorts á skriflegum heimildum. Allir geta þess hins vegar að þeim hafi gengið furðu vel að fá fólk til að skilja sig með því einfaldlega að mæla á eigin tungu. „Af einhverjum orsökum virtust þó bæjarmenn skilja sérdeilis vel allar mínar óskir er ég þær með hægð og skýrum varaburði, jafnframt temmilega gestíkúlerandi fram setti á þeirri minni móðurtungu er ég vissi hreinasta og besta um Breiðafjarðareyjar“ segir til dæmis séra Ketill Þorkelsson Arabíufari í Farandrellu sinni frá sautjándu öld (Khöfn 1907-8).

          Mannlífið var fagurt. Á kvöldin sátu íbúarnir á kaffihúsum og skröfuðu saman, hver á sinni tungu. Piltur og stúlka horfðust í augu. Hann sagði „ég elska þig“ á sínu máli sem gat til dæmis verið „lanas na vifríó“. Hún skildi það umsvifalaust og svaraði því sama á móti á sínu máli, ef til vill „sangran sprjú aðver“ og hljómurinn og fasið var þannig að ekkert varð misskilið.

En svo var það dag einn snemma á síðasta áratug síðustu aldar að málvísindamaður kom til bæjarins og settist þar að svo lítið bar á. Miklar breytingar höfðu þá nýlega orðið í pólitísku landslagi álfunnar, ekki í fyrsta sinn. Stórveldið hafði allt í einu liðast sundur og var bara horfið. Nýjar samstæður spruttu upp og skópu nýjar aðstæður. Gömul landamæri þurrkuðust út og önnur enn eldri tóku sig upp að nýju að hluta eða í heild. Bærinn sem lengi hafði verið afskekktur á útnára var nú skyndilega eins og stundum fyrr á öldum orðinn afskekktur í alfaraleið. Jafnframt hinum pólitísku hræringum hafði mikil upplýsingatæknibylting gengið yfir heiminn. Málvísindamaðurinn var þar í fremstu víglínu og kvöld eitt þegar hann var  á höttunum eftir fýsilegu doktorsverkefni á netinu hafði hann fyrir tilviljun rekist á frásögn af þessu dularfulla og illhöndlanlega tungumáli. Áhugi hans var þegar vakinn og hann sá sér leik á borði þegar hann áttaði sig á því að svæðið var nýlega orðið aðgengilegt í fyrsta sinn í marga áratugi. Bending og BINGÓ í senn.

      Fáeinum dögum síðar var hann kominn á staðinn og gat hafið rannsókn sína. Þegar hann tók að safna sýnishornum af mæli fólks áttaði hann sig smátt og smátt á sér til mikillar furðu hvernig allt var hér í pottinn búið. Eftir að hann hafði unnið bug á fyrstu vantrúnni breyttist leiðangur hans og var nú ekki lengur rannsóknarleiðangur, heldur tók hann að líta á sig sem bjargvætt staðarins. Hann vildi hjálpa þessu fólki til að takast á við nútímann. Hann komst brátt í feita styrki víða um heim og gat fundið leið til að orðtaka hvern einasta bæjarbúa og að því loknu sett upp tölvuforrit sem fljótt og vel skilaði nákvæmum þýðingum frá manni til manns. Í kjölfarið varð til ritmál, eða öllu heldur ritvinnslumál, allir íbúarnir lærðu að lesa og fengu fartölvur.

       Varð þetta svo ekki allt saman til góðs? Nei, síður en svo. Enginn treysti nú lengur á orðanna hljóðan, heldur aðeins á merkinguna. Öllu var flett upp jafnharðan. Orð sem fallið höfðu voru rifjuð upp og reyndust á sínum tíma hafa verið misskilin. „Lanas na vifríó“ þýddi ekki alveg „ég elska þig“ heldur „mér líkar þokkalega við þig kannski stundum“ eða eitthvað ámóta. Og svarið „sangran sprjú aðver“ reyndist algjörlega út í hött þegar farið var að grandskoða merkingu hvers atkvæðis. Fjölskyldur eru að sundrast og tryggðabönd sífellt að rofna. Gamall ágreiningur reynist ekki hafa verið jafnaður og rís hratt úr öskustó

     Málvísindamaðurinn varð bæjarstjóri, enda í lykilaðstöðu vegna þekkingar sinna.  Jafnframt er hann bankastjóri Orðabankans sem sker úr um öll ágreiningsmál. Ekkert fer hér lengur milli mála, segir hann. En það er ljóst að bæjarbragur er orðinn allur annar og miklu verri en áður var. Öll gleði er horfin, hvergi blik í auga né fínleg vipra í munnviki. Kaffihús lokuð. Hver hokrar að sínu með pókerfés og hefur vara á sér gagnvart öllu sem aðrir segja. Eiginlega er þarna enginn bær lengur. Þetta eru bara hús þar sem býr eitthvert slangur af fólki sem á svo sem ekkert sameiginlegt annað en orðhengilsháttinn. Flestir eru komnir á heimstungunámskeið og vilja flytja.

 © Þórarinn Eldjárn

Read more from the October 2011 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.