Skip to content
Join us for The Queer Issue X: A Reading and Party! July 2, 6:30PM–8:30PM | Unnameable Books in Brooklyn, NY
from the October 2011 issue

2093

Hann liggur og dreymir. Stór askur breiðir út krónuna og stúlkur bera
vatn í fötu og vökva ræturnar. Hann byltir sér og lítur upp. Hjá honum
situr gráhærð kona og strýkur hönd hans, hún er æðaber eins og
laufblað.
– Þú ert alltaf jafn fögur Dísa mín, segir hann og lokar augunum.
Þau dönsuðu alltaf í eldhúsinu. Dætur hans bleyta þvottapoka og þrífa
fætur hans. Hann liggur og hugsar um kríur.

--- --- ---

Ég geng inn í svefnherbergið og sé að hann er tannlaus. Ég hef aldrei
séð hann tannlausan. Afasystir mín hagræðir honum í rúminu, hún snýr
honum, hann er með bleyju. Pabbi kemur inn og leggur yngstu systur
mína í rúmið hjá honum. Hún er tannlaus og með bleyju. Hann hefur
lifað í 87 ár. Hún fæddist í haust.
Ef systir mín fær að lifa jafn lengi þá verður hún ennþá til árið ...
það er erfitt að reikna það út. 87 + 2006. Langafi opnar augun og
brosir til mín.
–Sæll vinur minn, segir hann.
¬–Hvað eru 87+2006?
Afi hugsar sig um og kyngir. Hann á erfitt með að kyngja.
–Það eru 2093, segir hann.
2093!

Í síðustu heimsókn sagði hann mér frá örlagadísinni.
–Hún skipaði mér að giftast henni ömmu þinni. Ég gerði bara eins og
mér var sagt og hef aldrei séð eftir því.
–Hefurðu séð hana? spurði ég.
–Nei, enginn getur séð hana, hún hefur ekki nægan kraft til að sýna sig.
–Eru þær til í alvöru? spurði ég.
–Já, og tröllin eru líka til. Þau voru gáfuðustu skepnur á jörðinni.
Að vera tröllheimskur er að vera mjög gáfaður.
Hann smíðaði hamar handa mér þegar ég fæddist og skrifaði nafnið mitt
á hann. Samt er það ekki nafnið mitt. Á hamrinum stendur Brimir Snjár.
Mömmu fannst nafnið of skrítið. Mér finnst það frekar flott nafn.

--- --- ---

Langafi borðar allt. Allt nema fólk, sagði hann stundum og glotti.
Þegar hann var níu ára plataði hann fóstruna sína til að sjóða fyrir
sig tófu.
–Var hún góð á bragðið?
–Nei, við flúðum úr eldhúsinu þegar hún dró hana upp úr pottinum,
sagði hann og hló.
Hann borðar allt nema fólk og tófur.

Hann fæddist fyrir norðan, þar voru engin tré. Hann var níu ára þegar
hann sá laufgað tré í fyrsta skipti. Fjörurnar voru fullar af
rekaviðardrumbum með stórar kræklóttar rætur eins og nornahendur. Hann
tálgaði oft menn og dýr úr spýtum sem rak á land.

Einu sinni sagði langafi mér frá stríðinu. Þegar hann sigldi með
fiskiskipi til Bretlands og sá fólk fljóta eins og spýtur í sjónum.
–Hver gerði þetta? spurði ég.
–Grimmar nornir, sagði hann.
–Þú meinar vondir menn?
–Nei, ekki vondir menn, grimmar nornir.
Næst þegar við hittumst var hann of þreyttur til að tala um stríðið.
Þarnæst var ég að spila tölvuleik en pabbi sat með honum inni í
eldhúsi.
2093 – ég skrifa töluna á blað.

--- --- ---

Við sátum einu sinni við lindina fyrir neðan eyðibýlið og horfðum út á sjó.
– Lokaðu augunum og hlustaðu, sagði hann.
– Ég lokaði augunum .
 Hann taldi upp fuglana sem píptu og görguðu í kringum okkur.
–Kría, æðarkolla ... lóa, spói, sendlingur ... hrossagaukur,
svartbakur, kjói ... himbrimi, hettumáfur ...
Við komumst strax upp í tíu fugla.
–Má ég opna augun? spurði ég.
Bíddu rólegur, sagði hann. Þá heyrðum við í krumma og síðan kom lómur.
–Tólf, sagði ég. –Bíddu aðeins lengur. Þá ropaði karri. Ég opnaði
augun og þrjár álftir flugu yfir lónin. –Veistu hvað krían heitir á
latínu? spurði hann.
–Hvað? spurði ég.
–Sterna Paradisea. Hún er paradísarfuglinn. Hún getur flogið kringum
allan hnöttinn og af öllum stöðum í heiminum lendir hún einmitt hér:
Paradís.

--- --- ---

2093, það voru síðustu orðin sem langafi sagði við mig.
Þegar ég kom heim úr skólanum í dag beið pabbi eftir mér inni í stofu.
Ég vissi að eitthvað hafði gerst. Hann tók utan um mig.
–Hann langafi þinn er dáinn, sagði pabbi. Hann dó í morgun.

Systir mín er fjögurra ára. Hún skilur samt ekki neitt.
–Er hann dáinn?
–Já, segir pabbi.
–Má ég grafa hann?
–Nei, hann verður ekki grafinn strax, við ætlum að kveðja hann.
–Getur hann ekki talað?
–Nei, hann getur ekki talað.
–En ef við kitlum hann?
–Nei það má ekki kitla hann, þú skalt vera þæg, sagði pabbi.
Hún syngur alla leiðina, –Afi minn er dáinn, afi minn er dáinn.
Litla rauða húsið er fullt af fólki. Mamma og pabbi faðma fólkið og ömmu.
–Af hverju eru allir að gráta? spyr systir mín.
Ég vil ekki gráta fyrir framan fólkið.
– Viltu sjá hann? spyr mamma. Ég fæ hnút í magann.
– Er hægt að sjá hann?
– Já, það er eins og hann sé sofandi. Þú þarft ekki að sjá hann ef þú
vilt það ekki.
Ég hugsa mig vel um.
– Ég vil sjá hann, segi ég.
Mamma opnar dyrnar. Langafi liggur í rúminu eins og sofandi. Tennurnar
eru komnar aftur upp í hann.
–Nú er hann farinn til Guðs, segir mamma.
– Við skulum kaupa alvöru töfrasprota og láta hann hætta að vera
dáinn, segir systir mín.
Ég bjóst við að verða hræddur, hann var dáinn en hann var samt bara
langafi minn. Hann var ekkert draugalegur. Ég gekk að honum, strauk á
honum á hendurnar. Þær voru mjúkar en kaldar. Ég strauk honum um
kollinn, hann var kaldur á enninu en samt var hann langafi minn. Ég
beygði mig að honum:
– Besti langafi, hvíslaði ég.
– Er allt í lagi? spurði mamma.
Ég gat ekki alveg svarað. Ég gat ekki sagt já vegna þess að mér finnst
sorglegt að hann hafi dáið og ég get ekki sagt að mér líði illa vegna
þess að honum líður greinilega ekki illa.
– Ég get ekki svarað, sagði ég.
Seinna fer ég aftur inn til hans og sit hjá honum. Mér finnst eins og
hann gæti vaknað á hverri stundu og byrjað að telja fugla.

--- --- ---

Allt var gamalt í herberginu, myndirnar voru gamlar, gömlu teinóttu
jakkafötin héngu á snaga og veggfóðrið var silfrað með skrítnu
mynstri. Á veggnum voru myndir af börnum. Einu sinni var þetta hús
fullt af börnum. Núna eru börnin orðin afar og ömmur. Jólaserían var
ennþá í glugganum þótt jólin væru búin. Mér fannst eins og hlutirnir
hans væru líka dánir. Yfir rúminu hékk klippimynd af englum og skógi.
Ég á eftir að sakna hans langaafa.
–Sterna Paradísea. Þá er hann kominn norður.
2093. Það væri langur örlagaþráður.

 

 
Read more from the October 2011 issue
Like what you read? Help WWB bring you the best new writing from around the world.